Múlaberg

Samstarfssamningur Akureyrarbæjar og Grófarinnar

Samstarfssamningur Akureyrarbæjar og Grófarinnar

Í dag var undirritaður nýr samstarfssamningur Akureyrarbæjar og Grófarinnar geðræktar um þjónustu Grófarinnar á Akureyri. Markmið samningsins er að efla Grófina sem geðræktarmiðstöð og ennfremur að auka tengsl og samvinnu Grófarinnar við þá aðila innan bæjarfélagsins sem vinna með fólki sem glímir við geðraskanir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins.

Grófin veitir fólki með geðraskanir, 18 ára og eldra, samastað til að vinna í bataferli sínu með aukinni virkni, jafningjastuðningi, hópastarfi og stuðningssamtölum við ráðgjafa. Markmiðið er að skapa tækifæri fyrir fólk með geðraskanir til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og án tímamarka. Við undirritun samningsins sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, meðal annars að öllum ætti að vera ljóst mikilvægi þess að halda utan um þann viðkvæma hóp sem á við geðrænan vanda að etja og að það væri Grófin vissulega að gera með miklum sóma.

Haldnir verða samstarfsfundir tvisvar á ári, í janúar og september, milli starfsmanna Grófarinnar og félagsþjónustu Akureyrarbæjar, þar sem farið verður yfir sameiginlega þjónustuþega og hvernig þörfum þeirra verði best mætt bæði á einstaklingsgrunni og/eða með hópastarfi eða námskeiðum. Félagsþjónusta sveitarfélagsins aðstoðar notendur við að tengjast Grófinni til að njóta endurhæfingar á þessu sviði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó