Samþykkja tilraunarverkefni með vindmyllur í GrímseyVindmyllur í Skotlandi

Samþykkja tilraunarverkefni með vindmyllur í Grímsey

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að veita Fallorku tímabundna heimild til eins árs til að setja upp og reka tvær vindmyllur í Grímsey í samræmi við erindi.

Ómar Ívarsson lagði fram umsókn í byrjun júní fyrir hönd Fallorku um leyfi til að setja upp tvær 6 kW vindmyllur í Grímsey sem tilraunaverkefni í eitt ár til prufu. Möstrin eru 9 m á hæð og spaðarnir 5,6 m í þvermál og er hæsti punktur frá jörðu því tæplega 12 m. Verða vindmyllurnar reistar á svæði sem í aðalskipulagi er skilgreint sem athafnasvæði þar sem fyrir eru fjarskiptamöstur og tæknibúnaður í eigu Mílu og Neyðarlínunnar.

„Ef vel gengur er gert ráð fyrir að setja upp samtals allt að 6 vindmyllur en ef ákveðið verður að fara ekki lengra með verkefnið tekur einn dag að taka þær niður án sjánlegs rasks á landi.Skipulagsráð samþykkir að veita Fallorku tímabundna heimild til eins árs til að setja upp og reka tvær vindmyllur í samræmi við erindi,“ segir í bókun skipulagsráðs.

„Grímsey er ekki tengd orkukerfum Íslands og hefur því öll orkuframleiðsla í eyjunni til þessa dags verið með ósjálfbæru óendurnýjanlegu jarðleifaeldsneyti með tilheyrandi neikvæðum umhverfis- og loftslagsáhrifum. Tilgangur framkvæmdarinnar er rjúfa þá stöðu með því að framleiða rafmagn í Grímsey með umhverfisvænum hætti, í stað þess að framleiða allt rafmagn með dísil-rafstöð eins og nú er. Gert er ráð fyrir, með þessu fyrsta skrefi, að rafmagn frá vindmyllunum tveimur framleiði um 10% af raforkuþörf í Grímsey,“ segir um tilgang verkefnisins í erindinu sem má lesa í heild hér.

UMMÆLI