NTC

Sandra María spilar í tékknesku deildinni – Draumurinn að fara í atvinnumennsku

Sandra María Jessen landsliðskona og Íslandsmeistari í knattspyrnu hefur skrifað undir samning við tékkneska félagið Slavia Prag um að spila með þeim í vor. Eftir dvölina mun Sandra snúa aftur til Íslands og taka þátt í Pepsí deildinni með Þór/KA.

Sandra sem er 22 ára gömul spilar sem framherji og á að baki 20 landsleiki með íslenska landsliðinu. Hún hjálpaði Þór/KA að verða Íslandsmeistari síðasta sumar auk þess sem hún var í landsliði Íslands sem tók þátt í Evrópumótinu í Hollandi.

Krefjandi verkefni að vinna sér inn sæti í liðinu

Sandra segir að framkvæmdastjóri Slavía hafi haft samband við hana persónulega og kannað áhuga hennar. Í kjölfarið hafi viðræður við Þór/KA hafist sem enduðu með samkomulagi um lánssamning.

Sandra þekkir ágætlega til liðsins en hún segist hafa horft á leiki með þeim á netinu auk þess sem hún lærði um nokkra liðsmenn þeirra fyrir landsliðsverkefni gegn Tékklandi.

„Þær eru baráttuglaðar með mikla tækni. Ég horfði á leik þeirra gegn Stjörnunni og sá að sóknarleikur liðsins er mjög góður. Það verður krefjandi verkefni að vinna mér inn sæti í liðinu en ég er spennt fyrir því verkefni.“

Lið allstaðar að úr heiminum sýndu Söndru áhuga meðal annars frá Svíþjóð, Noregi og Kína. Sandra valdi þó Slavia Prag þar sem hún fær tækifæri til þess að spila í Meistaradeild Evrópu. Slavia Prag mætir þýska stórliðinu Wolfsburg í 8. Liða úrslitum keppninnar en þar mætir Sandra Söru Björk Gunnarsdóttur liðsfélaga sínum úr íslenska landsliðinu.

„Það er virkilega spennandi og eitthvað sem allir leikmenn vilja taka þátt í.“

Vildi taka slaginn með Þór/KA

Sandra mun snúa aftur til Þór/KA í vor en ekki hefur verið ákveðin dagsetning. Það mun velta á gengi Slavia Prag í Meistaradeildinni. Sandra segir spennandi tímabil framundan sem ríkjandi Íslandsmeistarar. Hún mun þá einnig geta spilað í Meistaradeildinni með Þór/KA.

„Ég get því tekið þátt í öllum verkefnum með Slavia Prag en á sama tíma spilað með Þór/KA í Pepsí deildinni og Meistaradeildinni næsta sumar. Stefnan er sett á að vera komin heim fyrir fyrsta leik sumarsins hjá Þór/KA.“

Sandra segir að markmið Þór/KA sé að vinna titilinn aftur og gera góða hluti í Meistaradeildinni.

„Eins og gjarnan er sagt þá er mikilvægt að setja sér háleit markmið til að ná árangri.“

Atvinnumennskan enn draumurinn

„Frá því ég var lítil stelpa var draumurinn alltaf að spila með landsliðinu og fara í atvinnumennsku. Ég mun halda áfram að bæta minn leik og þroskast sem leikmaður. Mín persónulegu markmið eru að spila sem byrjunarliðsmaður í landsliðinu og semja við gott lið í einni af sterkustu deildum heims.“

Sandra hefur fengið smjörþefinn af atvinnumennskunni áður þegar hún spilaði með þýska liðinu Bayer Leverkusen. Þrátt fyrir að hún muni einungis eyða nokkrum mánuðum hjá Slavia Prag í byrjun árs segist hún ekki vita hvað muni gerast eftir næsta tímabil með Þór/KA. Hún segir þó að umgjörðin hjá íslenskum liðum sé sífellt að verða betri og að ef bera ætti aðstæður hjá Þór/KA og Leverkusen saman væri metnaðurinn á bakvið liðin sá sami.

„Á báðum stöðum er mikið lagt í kvennaboltann. Leverkusen er þó nokkuð ríkari klúbbur og eru aðstæðurnar úti alveg klassa fyrir ofan. Þar er sér lyftingaraðstaða fyrir meistaraflokka klúbbsins og kæliklefi til að flýta fyrir endurheimt svo eitthvað sé nefnt.“

Vel stemmd fyrir komandi landsliðsverkefni

Sandra er á sínum stað í landsliðshópnum þegar landsliðið ferðast til La Manga á Spáni og mætir Noregi í vináttulandsleik þann 23. Janúar næstkomandi. Sandra á ekki góðar minningar úr fyrri leikjum gegn Noregi en vonast til að safna betri minningum að þessu sinni.

„Ég er mjög vel stemmd fyrir landsliðsverkefninu á LA Manga og þá sérstaklega að mæta Noregi. Í síðustu viðureign gegn þeim fór ég útaf eftir um 20 mínútna leik með slitið krossband. Ég er því spennt að spila við þær aftur og vonandi eignast ég aðeins betri minningar í þetta skipti.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó