Sandra María sú markahæsta í sögu Þórs/KA í efstu deildMynd: thorka.is

Sandra María sú markahæsta í sögu Þórs/KA í efstu deild

Sandra María Jessen er orðin markahæsti leikmaður í sögu knattspyrnuliðs Þórs/KA í efstu deild kvenna í fótbolta eftir mark sitt í sigri liðsins gegn Aftureldingu í gær.

Þór/KA vann Aftureldingu 2-1 en Sandra skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins 20 sekúndna leik. Það var hennar 75. mark fyrir Þór/KA í 119 leikjum í efstu deild.

„Ég er virkilega stolt að vera búin að ná markametinu, það er persónulegt markmið sem ég hef stefnt að. Var svekkjandi að ná því ekki áður en ég samdi við Leverkusen, en þá er gott að koma heim aftur og vinna í því að ná því. Nú er bara að bæta í og reyna að skora fleiri,“ sagði Sandra við vef Þór/KA eftir leikinn í gær.

Sandra fór til Þýskalands árið 2019 og spilaði með Bayer Leverkusen áður en hún sneri aftur heim til Þór/KA í vetur. Rakel Hönnudóttir átti markametið áður en hún spilaði með Þór/KA á árunum 2004 til 2011.

Þetta var annar sigur Þór/KA í röð en liðið er með sex stig eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins í Bestu deild kvenna og er í þriðja sæti deildarinnar.

Sambíó

UMMÆLI