beint flug til Færeyja

Sátt um aflaheimilidir í þágu sjávarbyggða

Sátt um aflaheimilidir í þágu sjávarbyggða

Eiríkur Björn Björgvinsson, Guðbrandur Einarsson og Guðmundur Gunnarsson skrifa:

Í þeirri orrahríð sem útgerð hér á landi hefur staðið í síðastliðin misseri hefur sjónum aðallega verið beint á neikvæða þætti. Sjávarútvegur á Íslandi er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins. Atvinnugrein sem skapar mikilvæg störf bæði beint og óbeint og skilar þjóðinni mikilvægum tekjum í ríkiskassann. En umræðan hefur aðallega snúist um misnotkun á valdi, yfirgang gagnvart starfsfólki, brask og brall.

Í samtölum okkar við fjölda fólks, meðal annars sjómenn og fiskverkafólk, hefur komið fram að þau sem starfa í greininni hafa áhyggjur af ímynd hennar. Þarna er oft um að ræða fólk sem hefur unnið við greinina í tugi ára. Það hefur áhyggjur af afkomu sinni og samfélagsins sem það býr í. Þetta eru áhyggjur sem mikilvægt er að hlusta á.

Stofnum þjóðarsjóð til að efla byggð alls staðar
Oft hefur því verið borið upp á Viðreisn að markmið flokksins sé að eyðileggja greinina og stundum sagt að flokkurinn sé að leggja hana í einelti. Því fer víðs fjarri.

Við viljum einmitt vernda greinina og skapa sátt um umhverfi hennar, meðal annars til að efla byggðir landsins. Við viljum styrkja þá vegferð sem hún hefur verið á með sjálfbærum veiðum, öflugri nýsköpun og sterku gæðakerfi. Við erum meðvituð um að sjávarútvegur, eins og aðrar atvinnugreinar, eru í stöðugri framþróun. Þetta sést til að mynda þegar kemur að öryggis- og umhverfismálum, þó alltaf sé hægt að gera betur.

Viðreisn talar fyrir því að tímabinda réttinn til veiða um lengri tíma, meðal annars til að skapa ró um úthlutanir á heimildum og nýtingu auðlindarinnar sem sannarlega er eign þjóðarinnar.

Við tölum fyrir gegnsæi og sanngjörnu gjaldi af auðlindinni sem nýtast mun öllum landsmönnum, ekki síst þeim sjávarbyggðum sem treysta á atvinnugreinina. Þar væri til dæmis hægt að horfa til þjóðarsjóðs sem styrkt gæti sérstaklega ákveðin verkefni sem tengist ungu fólki, íþrótta-, menningar-, og æskulýðsstarfi.

Sjálfbærar veiðar, öflug nýsköpun og sterkt gæðakerfi
Viðreisn talar fyrir aukinni nýsköpun í greininni og styður áframhaldandi uppbyggingu sjávarklasa og vill aukin tengsl sjávarútvegs við menntastofnanir á öllum skólastigum. Þá er einnig mikilvægt að horfa til nýrra afleiddra greina sem tengjast tækni-, markaðs- og sölumálum í sjávarútvegi.

Við tölum fyrir möguleikum fólks og þá ekki síst ungs fólks til að eiga framtíð í sjávarbyggðum, meðal annars með því að tryggja nýliðun og hátæknistörf í greininni svo ungt fólk sem aflað hefur sér menntunar geti snúið aftur til baka og átt sína framtíð þar sem það ólst upp óski það þess.

Viðreisn styður skynsama uppbyggingu í fiskeldi og telur mikilvægt að ákvörðunarvaldið sé hjá fólkinu sjálfu, þar sem heimafólk fær um það ráðið hvort og þá hvar slík starfsemi fer fram og skipulagsvaldið sé á hendi viðkomandi sveitarfélaga. Við viljum ábyrga og umhverfisvæna framleiðslu.

Sköpum sátt
Í samtölum aðila sem vinna í nánum tengslum við sjávarútveg á fundi í Hörpu í júní kom fram að sjávarútveg verði að kynna betur fyrir þjóðinni. Það er mikilvægt fyrir þjóð eins og Íslendinga að þekkja betur eina af mikilvægustu grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Það er hlutverk okkar allra að skapa jákvæða umræðu um sjávarútveg og lyfta umræðunni á hærra plan. Fólk sem vinnur við þessa mikilvægu atvinnugrein á það skilið.

Umræðan um sjávarútveg hefur verið of neikvæð í allt of langan tíma. Það er kominn tími til að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein og við viljum leggja okkar af mörkum svo það geti gengið eftir. Þekking okkar og reynsla af sjávarútvegi sem íbúa í sjávarbyggðum og í gegnum störf okkar í sveitarstjórnum er dýrmæt þegar þessi mikilvæga atvinnugrein er rædd í sölum Alþingis.

Eiríkur Björn Björgvinsson skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, Guðbrandur Einarsson skipar 1. sæti Viðreisnar í Suðurkjördæmi og Guðmundur Gunnarsson skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

VG

UMMÆLI