Segir að bæta þurfi næringu barna í skólum bæjarins

Segir að bæta þurfi næringu barna í skólum bæjarins

Eyrún Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur í grunnskóla á Akureyri og móðir tveggja ára stelpu segir að bæta þurfi næringu í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar. Eyrún hefur sent formlegt bréf á fræðslusvið Akureyrarbæjar þar sem hún bendir á þetta.

Hún segir að ef litið sé á matseðla í leik- og grunnskólum hjá Akureyrarbæ megi sjá að þar séu rautt kjöt og unnar kjötvörur algeng sjón.

„Grænmeti er af skornum skammti, en þá helst hrátt eða úr dós. Fiskur er borinn fram meðal annars með sykruðum tómatsósum eða með snakki, og næringarlitlar súpur úr súpudufti eða mjólkurgrautar með kanilsykri eru í boði á föstudögum,“ segir Eyrún í spjalli við Kaffið.

„Rjómlagaða pasta með skinku eða pylsum, pítsa með skinku, pepperóní og hakki, snakkfiskur, pepperónífiskur, svínagúllas í tikka masala, kjötbúðingur, fiskibúðingur, súrsætur grísapottréttur, allt eru þetta réttir á matseðlum í leik- og grunnskólum hjá Akureyrarbæ. Þetta er það sem verið er að bjóða börnunum okkar uppá.“

Í 23. Grein laga um grunnskóla nr 91/2008 stendur að máltíðir á skólatíma eigi að vera í samræmi við opinber manneldismarkmið og í aðalnámskrá leikskóla stendur að leikskólum beri að leggja áherslu á hollt matarræði.

Í könnun sem embætti landlæknis gerði árið 2013  á matarframboði í leikskólum landsins kom fram að algengt sé að ekki sé fylgt ráðleggingum um matarræði landlæknis og í aðgerðaráætlun um beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu kemur fram að dæmi séu um að dregið hafi verið úr framboði grænmetis ávaxta í leik- og grunnskólum í sparnaðarskyni.

 „Inni á vefsíðu Akureyrarbæjar stendur að farið sé eftir ráðleggingum frá landlæknisembættinu í mötuneytum í leik- og grunnskólum en ef litið er á matseðla leik- og grunnskóla hjá Akureyrabæ má greinlega sjá að svo er ekki. Með því er Akureyrarbær að brjóta 23. Grein laga um grunnskóla og er ekki að uppfylla skyldur sínar sem heilsueflandi samfélag,“ segir Eyrún.

Í ráðleggingum frá landlæknisembættinu stendur að velja eigi næringarrík matvæli fram yfir unnar matvörur. Takmarka beri neyslu á unnum matvörum sem innihalda mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti.

Eyrún segir að á matseðlum í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar megi sjá að mest megnis af því kjöti sem er í boði er rautt kjöt eða unnar kjötvörur.

„Samt sem áður bjóða leik- og grunnskólar uppá kjöt allavegana tvisvar í viku og það í flestum tilfellum rautt kjöt eða unnar kjötvörur: grísahakk, nautagúllas, blandað hakk, lambakjöt, beikonkurl, skinka, pylsur, pepperóní og svo framvegis. Fyrir utan hádegismatinn er svo kjötálegg oft í síðdegishressingu líka. Grænmeti er af skornum skammti og ófjölbreytt en þá er helst boðið uppá hrátt grænmeti og grænmeti úr dós. Eldað, bakað, steikt grænmeti og grænmeti blandað í rétti eða grænmetis- og baunaréttir sjást sjaldan á matseðlum en í ráðleggingum frá embætti landlæknis er ráðlagt að borða grænmeti eða ávexti með öllum máltíðum og borða fjölbreytt úrval af grænmeti, bæði gróft og fínt, eldað og hrátt. Gróf korna vörur, eins og heilhveiti pasta, hýðishrísgrjón o.s.frv. eru í sumum skólum en alls ekki öllum.“

Það er ýmislegt sem að hefur breyst á síðustu árum í mötuneytum í leik – og grunnskólum, salatbarir byrjuðu í skólunum, hafragrautur er í boði frítt fyrir öll börn í grunnskólum bæjarins og kakósúpa var tekin af matseðlum. Eyrún segir þó enn vera langt í land og ýmislegt sem þurfi að bæta og breyta til þess að uppfylla þau skilyrði sem Akureyrarbæ er skylt að fylgja.

„Við höldum áfram að bjóða börnunum okkar, komandi kynslóðum, mat sem ekki er talin æskilegur og eykur líkur á lífstílstengdum sjúkdómum í stað þess að bjóða þeim fæðu sem að verndar gegn lífstílstengdum sjúkdómum,“ segir Eyrún.

,,Það minnsta sem að við getum gert fyrir börnin okkar og komandi kynslóðir er að bjóða þeim uppá næringarríkan og góðan mat í leik- og grunnskólum til þess að stuðla að betri lýðheilsu og koma í veg fyrir ýmis vandamál seinna á lífstíðinni. Ef að það er eitthvað sem að Covid faraldurinn hefur kennt okkur þá er það að tíminn er núna, við þurfum að koma vel fram við komandi kynslóðir og jörðina okkar og það þarf að gerast núna.“ 

Eyrún hefur barist fyrir því að dóttir hennar og önnur börn og foreldrar sem óska eftir því fái jurtafæði í leik og grunnskólum hjá Akureyrabæ.

„Í handbók fyrir skólamötuneyti stendur að skólinn eigi að koma til móts við þarfir barna hvað varðar sérfæði af öðrum ástæðum s.s trúarlegum toga eða öðrum skoðunum foreldra þannig að þau geti fylgt sömu áherslum í sínu fæði og heima. Þrátt fyrir það er algengt að foreldrum og börnum sem neita jurtafæðis sé neitað um slíkt í leik- og grunnskólum en flestir leik- og grunnskólar hjá Akureyrarbæ neita foreldrum um það. Mér persónulega var neitað um að dóttir mín fengi jurtafæði í staðin fyrir kjöt og unnar kjötvörur, en á endanum fékk ég það í gegn að ég fengi að nesta dóttur mína en þá er ekki hægt að geyma matinn hennar í ísskáp eða hita upp matinn. Dóttir mín þarf því að borða mat sem að hefur staðið við stofuhita í 4 klst.“

„„Mér er annt um heilbrigði dóttur minnar, ég vil gera allt sem ég gert í minni stöðu til þess að stuðla að hennar heilbrigði og koma í veg fyrir lífstílstengda sjúkdóma. Það að skólakerfið standi í vegi fyrir mér í því að stuðla að góðri lýðheilsu dóttur minnar er gjörsamlega fáránlegt. Það að ég sem foreldri fái ekki að hafa neitt um það að segja hvað dóttur minni er boðið í leikskóla er algjörlega útí hött. Hún er tveggja ára, hún er að læra að kynnast mat, allskonar mat, það er grunnurinn að hennar heilbrigði í framtíðinni og ég neita að sitja á mér og segja ekki neitt. Ég berst fyrir hennar heilsu.“

Þónokkrir leik- og grunnskólar á Íslandi hafa tekið uppá að bjóða uppá vegan mat fyrir börn sem kjósa það. Í Mosfellsbæ er boðið uppá grænmetis- og veganfæði í öllum leik- og grunnskólum frá því í febrúar árið 2020. Þá býður Skólamatur, fyrirtæki sem þjónustar um 50 leik- og grunnskóla á Suðurlandi einnig uppá vegan fæði.

Í frétt sem birtist í fréttablaðinu 9. Janúar 2021 kemur fram að fjórtán prósent grunnskólanemenda sem borða mat frá Skólamat kjósi að borða vegan mat, að öllu leyti eða hluta, á hverjum degi. Væri það yfirfært á fjölda eru það um 1500 grunnskólanemendur á hverjum degi.

Eyrún hvetur foreldra til þess að skoða matseðla í skólum hjá sínum börnum og senda ábendingar á fræðslusvið.

„Það er algjörlega óásættanlegt að börn í leik- og grunnskólum hjá Akureyrarbæ fái ekki almennilega næringu að borða í skólunum og að Akureyrarbær fari ekki eftir ráðleggingum embætti landlæknis. Það er líka algjörlega óásættanlegt að ekki sé komið til móts við þarfir barna og foreldra um jurtafæði í takt við hraða þróun í samfélaginu, m.t.t heilbrigðis, umhverfis og siðferðis. Að dóttir mín þurfi að borða mat við stofuhita er óásættanlegt.“

Formlégt bréf Eyrúnar til Akureyrarbæjar má lesa hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó