Akureyrarbær kynnti í gær drög að deiluskipulagi fyrir nýtt íbúðasvæði í bænum fyrir ofan Síðuhverfi. Í lýsingu á hverfinu á vef bæjarins segir að það verði grænt og vistvænt. Dagur Bollason, stefnumótunarsérfræðingur, segir skipulag nýja hverfisins geta verið kennsluefni í grænþvotti.
Grænþvottur er þegar fyrirtæki setur fram rangar eða villandi upplýsingar um umhverfiságæti eigin vöru. Dagur telur að nýtt hverfi Akureyrarbæjar sem auglýst er grænt og vistvænt falli þar undir.
Sjá einnig: Hátt í þúsund nýjar íbúðir fyrir ofan Síðuhverfi
„Fyrir það fyrsta er um að ræða hefðbundið íslenskt botnlangaskipulag sem er með því óumhverfisvænasta sem tíðkast. Miklu landmagni er ráðstafað undir bíltengda innviði og fyllilega gert ráð fyrir að nánast allar ferðir séu farnar á bíl með rúmlega einu bílastæði áætlað á hverja íbúð,“ segir Dagur í spjalli við Kaffið.
Hann segir að illa sé farið með land á svæðinu, til dæmis með íbúðargötum samhliða safngötum. Hann telur að þetta komi til með að þyngja bílaumferð í bænum
„Rétt eins og á Höfuðborgarsvæðinu sem er undirlagt botnlangabyggðum kemur þetta til með að þyngja bílumferð á Akureyri gríðarmikið. Ekki síst vegna þess að ekki er sérstaklega gert ráð fyrir verslun eða þjónustu í skipulaginu og ekki heldur grunnskóla. Gerð er smá smuga á verslun utarlega í hverfinu sem mun hafa sömu áhrif og í Naustahverfi – þangað verður allt sótt á bíl og hefði verið heppilegra inn í miðju hverfi.“
Þá telur hann skipulag hverfisins ekki henta almenningssamgöngum bæjarins.
„Ef Strætó kemur til með að ganga í hverfið, sem gæti orðið seint og illa eins og í Urriðaholti, mun það kosta alveg nýja lykkju á Strætókerfið með tilheyrandi kostnaði og sennilega lítilli notkun sökum lágs þéttleika. Mjög líklegt er að norðanáttin eigi þá greiða leið gegnum helsta ás hverfisins sem mun án efa hafa letjandi áhrif á virka samgöngumáta.“
Dagur segir þó jákvætt að í skipulaginu sé gert ráð fyrir því að húsin séu byggð úr timbri.
„Eftir stendur þó að um er að ræða skipulag af þeirri tegund sem hefur komið Höfuðborgarsvæðinu alveg út í skurð umhverfislega, umferðarlega, rekstrarlega og eiginlega fagurfræðilega líka,“ segir Dagur að lokum.
Hægt er að kynna sér skipulag nýja hverfisins á vef Akureyrarbæjar með því að smella hér.
UMMÆLI