Segja enn himinn og haf á milli aðstöðu stelpna og stráka í fótbolta á Akureyri

Segja enn himinn og haf á milli aðstöðu stelpna og stráka í fótbolta á Akureyri

Hópur foreldra stúlkna í meistaraflokki Þórs/KA safnaði peningum fyrir liðið með þrifum í Lundarskóla á Akureyri í gærmorgun. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi á Akureyri, var einn af þeim sem mættu en hann segir að það hljóti að vera eitthvað að kerfinu þegar stelpur í fótbolta þurfi að nýta verulegan tíma í fjáröflun ofan á æfingar og leiki.

„Þrátt fyrir gleðina vorum við að velta fyrir okkur þeirri ólíku stöðu sem foreldrar og keppendur í meistaraflokki kvenna er miðað við karlana, þegar kemur að fjárhagsstuðningi við liðin. Það hlýtur að vera eitthvað að í kerfinu hjá okkur þegar stelpurnar okkar þurfa að nýta verulegan tíma til að þrífa íbúðir, mæta í vörutalningu o.s.frv. ofan í æfingatíma og leikja tíma sem er orðinn verulega mikill. Ég verð ekki var við að strákarnir okkar þurfi að standa í þessu, komnir í meistaraflokk. Þar gildir að skrifa undir samning, fá greitt og jafnvel bíl til afnota með, eftir því sem heyrst hefur,“ skrifar Gunnar á Facebook.

„Það er sem sagt himinn og haf á milli þeirrar aðstöðu sem stelpurnar eru í miðað við strákana, þrátt fyrir jafnréttisáætlanir sem gerðar hafa verið og samþykktar í öllum samböndum og félögum. Jafnréttisáætlanir ganga útá að stelpur og strákar í meistaraflokki sitji við sama borð hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og umgjörð eða er það bara tálmynd og óskhyggja að svo sé eða eigi að vera. Það hlýtur að vera keppikefli félaganna að uppræta þá mismunun sem er greinilega í gangi hér og reikna ég með að sjá tillögur þar um fyrr en seinna og aðgerðaáætlun með. Áfram Þór/KA!“

Yrsa Hörn Helgadóttir, eiginkona Gunnars, tekur í sama streng á Facebook síðu sinni.

„Ég er ekki sátt og ég veit í hjarta mínu að enginn er það. Þess vegna langar mig til að við breytum þessu. Þó það kosti sársauka til að byrja með. Ég geri mér grein fyrir því að fjármagn inn í knattspyrnuna hangir saman við árangur karla og það myndi fylgja því ákveðinn sárauki að stíga skref í þá átt að að útdeila fjármagni með öðrum hætti en nú er gert. Það þarf að rýma til fyrir stelpunum og hleypa þeim að kötlunum. Er hægt að stíga þau skref að stelpurnar okkar njóti góðs til jafns við karlana okkar þegar kemur að því að deila út því fjármagni sem safnast hér innanbæjar/innanlands? Er raunverulegur vilji til að jafna stöðu karla og kvenna í knattspyrnunni (auðvitað allsstaðar) og gera það sem þarf að gera? Flottu strákarnir okkar eru velkomnir í bæði bakstur og þrif,“ skrifar Yrsa á Facebook en færslu hennar má sjá í heild hér að neðan.

UMMÆLI