beint flug til Færeyja

Sér ekki tilgang með því að spila fyrir annað lið á Íslandi en Þór/KA

Sér ekki tilgang með því að spila fyrir annað lið á Íslandi en Þór/KA

Flestir knattspyrnuáhugamenn ættu að vera farnir að kannast við Lillý Rut Hlynsdóttur en þrátt fyrir ungan aldur hefur þessi 19 ára gamli miðvörður verið í lykilhlutverki hjá Þór/KA undanfarin ár.

Lillý lék alla leiki Þór/KA síðastliðið sumar þegar liðið endaði í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar. Hún kveðst nokkuð sátt með sumarið þó titlalaust sumar sé eitthvað sem liðið eigi ekki að sætta sig við.

,,Ég var sátt með mína frammistöðu í sumar, mér finnst mér fara fram og líður vel í miðverðinum sem er tiltölulega ný staða fyrir mig. Þór/KA er á þeim stað í íslenskum kvennafótbolta að markmiðin eru alltaf skýr og þau eru að berjast um þá titla sem eru í boði. Við náðum ekki okkar markmiðum í sumar en það voru margir jákvæðir punktar, þá sérstaklega í seinni hluta mótins sem við getum haldið áfram að vinna með og bæta,“ segir Lillý í viðtali við Kaffið.

Lillý má sannarlega vera sátt við eigin frammistöðu. Andstæðingar hennar í Pepsi-deildinni fóru ekki varhluta af henni því Lillý var útnefnd efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hún segir það vera mikinn heiður.

Sjá einnig: Lillý Rut efnilegasti leikmaður úrvalsdeildar

,,Það er mjög mikill heiður og gott fyrir sálartetrið að fá svona viðurkenningu. Ég veit að ég er að gera eitthvað rétt því það eru stelpurnar sem ég er að spila á móti sem kjósa. Það eru mjög margir ungir og efnilegir leikmenn í deildinni sem hefðu líka átt þetta skilið.“

Efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar kvenna 2016. Mynd: Úr einkasafni

Efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar kvenna 2016. Mynd: Úr einkasafni

Kom ekki til greina að yfirgefa uppeldisfélagið

Lillý Rut ákvað á dögunum að framlengja samning sinn við Þór/KA til tveggja ára. Samkvæmt heimildum Kaffið.is var hún mjög eftirsótt af öðrum liðum en ákvað að halda tryggð við uppeldisfélagið.

Sjá einnig: Sex leikmenn framlengja við Þór/KA

,,Jájá ég fann alveg fyrir áhuga en ég sá ekki tilganginn með því að fara í eitthvað annað lið á Íslandi þegar ég er í liði sem er í þeim klassa sem Þór/KA er. Það er mjög flott og metnaðarfullt starf hjá Þór/KA hvað varðar þjálfun og umgjörð. Þór/KA er mitt lið og mér líður vel hér. Jóhann (Kristinn Gunnarsson) og Moli (Siguróli Kristjánsson) eru búnir að gera frábæra hluti undanfarin ár og þeir hafa þjálfað mig öll mín ár í meistaraflokki. Ég á þeim báðum mikið að þakka,“ segir Lillý.

Þjálfaraskipti urðu hjá Þór/KA að tímabilinu loknu þar sem þeir Jóhann Kristinn og Siguróli ákváðu að láta gott heita eftir farsælt starf. Donni Sigurðsson tekur við stjórnartaumunum og er Lillý sannfærð um að framtíðin sé björt í kvennaboltanum á Akureyri.

Sjá einnig: Donni Sigurðsson tekur við Þór/KA

,,Framtíðin er björt í akureyrskri kvennaknattspyrnu og það eru margar ungar og mjög efnilegar stelpur að koma upp. Ég er mjög spennt fyrir sumrinu og held að við eigum eftir að gera góða hluti. Ráðning Donna sýnir hversu metnaðarfullt starfið er hjá Þór/KA. Hann hefur miklar væntingar til liðsins og er ég mjög spennt að vinna með honum.“

Lillý Rut í leik með Þór/KA. Mynd: Úr einkasafni

Lillý Rut í leik með Þór/KA. Mynd: Úr einkasafni

Ætlar sér í A-landsliðið

Lillý á fjöldann allan af landsleikjum að baki fyrir yngri landslið Íslands en hún hefur leikið alls 34 leiki fyrir U16, U17 og U19 ára landslið Íslands og borið fyrirliðabandið í ansi mörgum þeirra. Hún var valin í æfingahóp A-landsliðsins á dögunum. Markmið hennar varðandi landsliðið eru skýr.

Sjá einnig: Fjórar úr Þór/KA í æfingahóp landsliðsins

,,Það hefur alltaf verið markmiðið mitt að komast í A-landsliðið en það sem ég þarf fyrst og fremst að gera er að vera þolinmóð og halda áfram að æfa og bæta það sem ég þarf að bæta,“ segir Lillý sem á sér fleiri háleit markmið. ,,Takmarkið er að spila með A-landsliðinu og spila erlendis. En núna er það Þór/KA og að klára stúdentinn sem skiptir máli, hitt kemur svo vonandi í framtíðinni,“ segir þessi öfluga knattspyrnukona að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó