Sérstök hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga aðstoðar við ráðningu á nýjum skólameistara MA

Sérstök hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga aðstoðar við ráðningu á nýjum skólameistara MA

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að skipa sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að aðstoða við ráðningu á nýjum skólameistara Menntaskólans á Akureyri.

Mennta- og barnamálaráðuneytinu barst erindi frá Kennarafélagi Menntaskólans á Akureyri (MA) þar sem skorað var á ráðherra að hefja umsóknarferli við skipun skólameistara menntaskólans á ný með nýrri skólanefnd. Ástæðan er vantraust á störfum núverandi skólanefndar, sem félagið telur að eigi að leysa frá störfum.

Ásmundur brást við með því að skipa hæfninefndina til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.

„Ráðuneytið tekur ábendingar Kennarafélags skólans alvarlega og vekur athygli á að skólanefndir taka ekki ákvörðun um skipan í embætti skólameistara heldur veita þær ráðherra lögbundna umsögn sem eingöngu byggir á umsóknargögnum umsækjenda. Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, með síðari breytingum. Ráðuneytið hefur móttekið umsögn skólanefndar MA vegna skipunar nýs skólameistara,“ segir í tilkynningu.

Við skipun skólameistara leggur ráðuneytið heildstætt mat á umsækjendur á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um embættið. Til grundvallar slíku mati eru umsóknargögn umsækjanda sem taka m.a. til ferilskrár, kynningarbréfs og framtíðarsýnar fyrir skólann, frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum og meðmæla auk umsagnar skólanefndar. Að loknu heildstæðu mati tekur ráðherra sjálfstæða ákvörðun um skipun hæfasta umsækjanda í embættið byggða á öllum fyrirliggjandi gögnum. Ábendingar Kennarafélags MA hafa borist ráðuneytinu og er erindið nú einnig hluti af gögnum málsins.

„Mikilvægt er að sátt ríki um framkvæmd skipunar skólameistara innan og utan skólans. Í ljósi stöðunnar mun ráðherra skipa hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á. Umsögn skólanefndar, hæfninefndar og erindi Kennarafélagsins verða meðal þeirra gagna sem horft verður til við skipun nýs skólameistara. Mennta- og barnamálaráðuneytið mun fara yfir þær ábendingar sem borist hafa um skólanefndina m.t.t. áframhaldandi starfa hennar,“ segir í tilkynningu.

Sambíó

UMMÆLI