Prenthaus

Sex KA-menn í liði ársins – Ásgeir efnilegastur

Vefmiðillinn Fótbolti.net stóð fyrir veglegu lokahófi Inkasso-deildarinnar í gærkvöldi og er óhætt að segja að KA-menn hafi verið áberandi þar.

large_1467905018_ka

Efnilegasti leikmaður Inkasso 2016. Mynd: KA.is – Sævar Geir Sigurjónsson

Það þarf svosem ekki að koma á óvart þar sem liðið vann Inkasso-deildina með þónokkrum yfirburðum. Lið ársins var valið af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.

Gamla brýnið Srdjan Rajkovic var besti markmaður deildarinnar. Guðmann Þórisson og Hrannar Björn Steingrímsson voru í vörninni ásamt Andy Pew úr Selfossi og Jósef Kristni Jósefssyni úr Grindavík. Miðjuna skipuðu KA mennirnir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Ásgeir Sigurgeirsson ásamt Alexander Veigari Þórarinssyni úr Grindavík. Í fremstu víglínu var svo Elfar Árni Aðalsteinsson ásamt Hákoni Inga Jónssyni úr HK og Gunnari Örvari Stefánssyni úr Þór.

Tveir KA menn til viðbótar voru nálægt því að komast í lið ársins því þeir Almarr Ormarsson og Aleksandar Trnicic voru á bekknum í liði ársins.

Gunnar Örvar Stefánsson var eini leikmaður Þórs í liði ársins en hann var jafnframt markahæsti leikmaður Inkasso-deildarinnar þetta árið.

Einnig voru veitt einstaklingsverðlaun og var Ásgeir Sigurgeirsson valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Þessi ungi og efnilegi Húsvíkingur fékk stórt hlutverk í liði KA og skoraði átta mörk í sautján leikjum.

234508

Lið ársins, valið af fyrirliðum og þjálfurum. Mynd: Fótbolti.net

Sambíó

UMMÆLI