Sierra og Mayor áfram hjá Þór/KA

Mynd: thorsport.is

Mexíkósku landsliðskonurnar Bianca Sierra og Sandra Stephany Mayor hafa skrifað undir nýjan samning við Íslandsmeistara Þór/KA. Þær voru báðar í lykilhlutverki hjá liðinu sem tryggði sér sinn annan Íslandsmeistaratitil á dögunum.

Sandra Stephany Mayor var valinn besti leikmaður liðsins ásamt því að vera valinn besti leikmaður Pepsi deildarinnar. Hún var einnig markahæsti leikmaður liðsins með 19 mörk í 18 leikjum. Bianca Sierra spilaði lykilhlutverk í varnarleik liðsins sem fékk einungis á sig 15 mörk í sumar. Bianca spilaði hverja einustu mínútu liðsins í sumar og skoraði 2 mörk.

Þær skrifuðu undir nýja samninga þegar liði hittist í kvöldverð á veitingahúsi Bryggjunnar. Halldór Jón Sigurðsson betur þekktur sem Donni var ánægður með samningana þegar hann spjallaði við heimasíðu Þórs í kvöld. „Það er mjög sterkt að halda báðum þessum leikmönnum. Þær stóðu sig afbragðs vel í sumar, bæði inni á vellinum og fyrir utan hann. Þetta sýnir hversu vel þeim leið hjá okkur og hversu metnaðarfullt starfið er hjá Þór/KA. Við ætlum okkur helst að halda öllum okkar leikmönnum og frábært að þessir lykilmenn semja fyrstar. Það er stefnan að þær mæti í janúar og taki meirihlutann af undirbúningstímabilinu með liðinu, sem er alveg frábært, bæði fyrir þær og liðið í heild sinni.“

Sjálfar segja þær að það hafi verið auðveld ákvörðun að ákveða að framlengja samning sinn. Þær skrifa undir 1 árs samning við liðið. „Akureyri er orðin okkar annað heimili og fólkið hjá Þór/KA hefur tekið okkur eins og hluta af fjölskyldunni. Við getum ekki beðið eftir að fá tækifæri til að verja titilinn á næsta ári.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó