Siggi Gunnars nýr tónlistarstjóri Rásar 2

Siggi Gunnars nýr tónlistarstjóri Rásar 2

Akureyringurinn Sigurður Þorri Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr tónlistarstjóri Rásar 2. Siggi hefur undanfarin átta ár starfað á K100 en segir að nú sé kominn tími á nýjar áskoranir á nýjum stað.

Sá staður er RÚV okkar allra þar sem ég mun fljótlega taka við starfi tónlistarstjóra Rásar 2. Litli-Siggi var bara sex ára þegar hann fékk að fylgjast með Gesti Einari að störfum á RÚVAK en þaðan sendi hann út þáttinn Hvíta máva að loknum hádegisfréttum. Eftir það var ekki aftur snúið, útvarpsbakterían var komin til að vera. Almannaútvarp hefur verið mér hugleikið lengi, en bæði BA ritgerðin mín og MA verkefnið mitt fjölluðu einmitt um hlutverk almannaútvarps og í meistaranáminu í Bretlandi lagði ég sérstaka áherslu á að kynna mér vel útvarpshluta BBC,“ skrifar Siggi á Facebook.

„Nema hvað, tuttugu og sjö árum eftir að hafa fylgst með Gesti Einari tala við þjóðina, hef ég störf á RÚV og verð einmitt í loftinu á sama tíma og fyrirmyndin var á árum áður – á milli kl. 12:40 og 14. Sannkallað draumastarf að koma að rekstri vinsælustu útvarpsstöðvar landsins, vinna með íslensku tónlistarfólki og fá tækifæri til að kynna helstu strauma og stefnur í tónlist. Magnað hvernig örlagadísirnar eiga það til að snúast á sveif með manni.Hjartans þakkir fyrir samstarfið kæru vinir í Hádegismóum! Við getum verið stolt og glöð af árangri síðustu ára. Mér þykja kveðjustundir alltaf erfiðar en á sama tíma er ég ótrúlega spenntur fyrir næstu verkefnum. RÚV – hér kem ég!“

Í tilkynningu á vef RÚV segir að starfið hafi verið auglýst í byrjun mars og gengið hafi verið frá ráðningu í gær. Í rökstuðningi fyrir ráðningunni kom fram að Sigurður Þorri uppfyllti allar hæfniskröfur mjög vel og sér í lagi hefur hann til að bera menntun á sviði fjölmiðlafræði og útvarps ásamt því að búa yfir mikilli reynslu af dagskrárgerð og tónlistarstjórn.

„Sigurður er menntaður fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og með meistaragráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á útvarp frá Háskólanum í Sunderland á Englandi. Hann hefur unnið hjá Árvakri síðan 2017 og fyrir utan störfin í útvarpinu hefur hann meðal annars  skrifað fréttir tengdar tónlist og afþreyingu og stýrt vinsælum bingóþáttum á mbl.is,“ segir á vef RÚV.

UMMÆLI

Sambíó