Sigrid Undset á sagnaslóðum

Sigrid Undset á sagnaslóðum

Hin norska Sigrid Undset var fædd árið 1882. Hún hlaut Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir árið 1928. Meðal þekktra verka hennar eru Jenny frá árinu 1911 og Kristin Lavransdatter, þríleikur sem kom út á árunum 1920-22.

Aðeins þremur árum eftir að frú Undset tók við Nóbelsverðlaununum, ferðaðist hún um Ísland. Hún var áhugasöm um Íslendingasögurnar og kunni skil á þeim umfram margan lærðan Íslendinginn. Undset skoðaði sig um á söguslóðum í Eyjafirði í lok júlí 1931. Hún kom m.a. við á Munkaþverá og í Saurbæ. Hún lét hafa eftir sér í viðtali að af öllum stöðum á Íslandi kynni hún best við sig í dölum Norðurlands. „Þeir minna mig svo á Noreg að mér finnst ég eiga þar heima.“

Á ferðalagi sínu um Eyjafjörð skoðaði Sigrid Undset sig um á slóðum Helga magra og Þórunnar hyrnu í Kristnesi. Líkast til hefur henni verið kunnugt um ættartengsl landnámsfjölskyldunnar í Kristnesi og Auðar djúpúðgu, einnar aðalpersónu Laxdælu sem og siðaskipti Helga. Helgi trúði jú á Krist en hét á Þór. Var Nóbelsskáldið kannski að sækja sér efnivið fyrir bók sína The Burning Bush sem kom út ári eftir Íslandsheimsóknina, 1932? Aðalpersóna sögunnar skiptir um trú.

Sigrid Undset er ekki eina Nóbelsskáldið sem hefur spígsporað um grundir Kristness. Halldór Kiljan Laxness gerði það árið 1937 og líklegur Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum árið 1923, Einar H. Kvaran, var vel kunnugur staðháttum í Kristnesi vegna kunningsskapar við ábúendur í Reykhúsum, Hallgrím Kristinsson og Maríu Jónsdóttur. Ekki féllu Nóbelsverðlaunin Einari í skaut.

Skáld og frásagnir þeirra hafa þannig lengi verið hluti af sögu staðarins. Sagnalist heldur pennanum á lofti í Kristnesi og skráir sögur og miðlar.

Pistill af sagnalist.is

Sambíó

UMMÆLI