Sigþór Bjarnason – minning

Sigþór Bjarnason – minning

Ein mesta gæfa sem okkur hefur fallið í skaut er að hafa átt Sigþór Bjarnason að nánum vin og samstarfsfélaga í áratugi. Ung kynntumst við þegar hann var ráðinn  pressari í fatagerðina Burkna þar sem lagni hans og útsjónarsemi kom strax í ljós. Allt virtist leika í höndum Danda og fljótt sá Jón M. Jónsson að þarna fór piltur sem hægt var að treysta auk þess sem öllu samstarfsfólkinu leið einkar vel í návist hans. Hann hafði mjög góða nærveru.

Þegar Dandi kom svo til liðs við okkur í versluninni fengu allir hans góðu mannkostir strax notið sín, bæði gagnvart okkur sem störfuðum með honum og ekki síður fyrir viðskiptavinina sem hann þjónaði af alúð og samviskusemi auk þess að vera alltaf glaður og upplífgandi.  Það kunnu viðskiptavinirnir vel að meta og því leituðu þeir til hans í ár og áratugi þegar endurnýja þurfti fatnað eða fata sig upp á nýtt. Þá var okkar maður í essinu sínu, hringsnérist í kringum fólkið og þjónaði því af alúð og áhuga og fór aldrei í manngreinarálit.  Hann var því sannarlega sómi sinnar stéttar og vinsældir hans spurðust víða um land og þar með orðspor Herradeildar JMJ.

Bjartsýni vinar okkar og jákvæðni átti sér engin takmörk.  Við höldum því fram að hann sé höfundurinn að setningunni ˶Ekki málið,” enda var ekkert ómögulegt í hans huga og hann sagði stundum: ˶Ef einhver getur það, þá get ég það.” Þannig var hann og þannig minnumst við hans, jákæður og uppörvandi hvar sem hann fór.   

Þegar deilur urðu í vinahópum sem hann var þátttakandi í og allt stefndi í óefni var oft sagt: ˶Tökum bara Danda á þetta.” Þar með var oftast fundin niðurstaða sem allir urðu kátir með enda Dandi lausnarmiðaður svo af bar.

Aldrei heyrðum við hann segja hnjótsyrði um nokkurn  mann en dvaldi frekar við kosti einstaklinga en galla enda hafði hann engan áhuga á því sem neikvætt var eða niðurrífandi. Hann var maður sátta, heill til orðs og æðis og vildi öllum gott gera. Með öðrum orðum: Mjög vandaður og áreiðanlegur maður.

Það er því með djúpum harmi og söknuði sem við kveðjum vin okkar og samstarfsmann en þökkum honum um leið vináttuna, drengskapinn og alla hjartahlýjuna. Sendum hans frábæru eiginkonu, Guðríði Bergvinsdóttur og fjöldskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur.  

Blessuð sé minning Sigþórs Bjarnasonar.

Ragnar Sverrisson, Guðný Jónsdóttir

UMMÆLI

Sambíó