Sigurður Kristinsson fastur á Spáni eftir heilablóðfall Skjáskot: RÚV

Sigurður Kristinsson fastur á Spáni eftir heilablóðfall 

Sigurður Kristinsson, 71 árs gamall Akureyringur er í mjög vondri stöðu á Spáni. Hann fékk alvarlegt heilablóðfall um miðjan ágúst þar sem hann var staddur á Torrevieja á Spáni. Sigurður hefur dvalið á þeim slóðum stóran hluta ársins í nokkur ár sér til heilsubótar, eins kaldhæðnislegt og það hljómar.

Afleiðingar heilablóðfallsins eru mjög slæmar. Hann er lamaður á vinstri hlið líkamans, hann getur ekki kyngt og er það viðbragð væntanlega horfið til lífstíðar, hann er með mismikla meðvitund um umhverfi sitt og mjög þróttlítill. 

Til að byrja með þurfti að bíða í að minnsta kosti 4 vikur til að fá samþykki frá lækni fyrir flugi heim vegna áhrifa heilablóðfallsins. Hann fékk þó ekki að dvelja á sjúkrahúsinu í Torrevieja allan þann tíma þar sem hann var ekki í bráðri lífshættu, heldur þurfti að koma honum fyrir á hjúkrunarheimili á kostnað aðstandenda.

„Við aðstandendur vorum svo bjartsýnir að halda að hann gæti öðlast nógu mikinn styrk til að fara heim í hjólastól en eftir því sem á dvölina hefur liðið versnar ástand hans,“ segir Björg Unnur Sigurðardóttir, dóttir Sigurðar.

„Eftir nokkurra daga dvöl á hjúkrunarheimilinu datt hann fram úr rúminu, sem var ekki sjúkrarúm, fékk höfðuáverka og var fluttur á sjúkrahús í Murcia. Þar greindist hann með alvarlega nýrnabilun og þvagfærasýkingu. Hann var síðan sendur aftur til baka en því miður ekki til langs tíma því hann var aftur fluttur á sjúkrahúsið og þá með lungnabólgu og fleiri vandamál,“ segir Björg. 

Nú, einni og hálfri viku síðar, er búið að vinna að mestu bug á flestum sýkingum en þó er Sigurður það slakur og máttfarinn að hann mun ekki geta flogið með hefðbundnu áætlunarflugi, hvort sem er í stól eða börum.

Þar sem hann hafði dvalið á Spáni umfram ferðatryggingatímann tiltekinn á kreditkortaskilmálum var hann ekki með gilda ferðatryggingu og þar af leiðandi ekki hægt að virkja SOS International til að koma honum heim í sjúkraflugi. Sjúkratryggingar Íslands styrkja ekki flutning sjúklinga á milli landa samkvæmt lögum.

Fjallað var um mál hans á RÚV 4. október síðastliðinn, sjá Kastljóssumfjöllun og fréttir.

„Við, fjölskylda Sigurðar, búin að setja af stað söfnun til geta pantað fyrir hann sjúkraflug á vegum einkafyrirtækis.Reikningur var stofnaður í nafni dóttur hans, Rúnu Kristínar í Sparisjóði Höfðhverfinga. Reikningsnúmerið er: 1187-05-250534, kt. 150873-4879,“ segir Björg.

„Við höfum nú þegar fengið tilboð frá einu fyrirtæki, International SOS í Bretlandi, sem hljómaði upp á rúmar 55.000 evrur (um 8.200.000 ISK). Við erum einnig nýbúnar að fá tilboð frá norsku fyrirtæki, Airwings, upp á um 6,7 milljónir ISK. Við leitum því til allra sem mögulega hafa tök á að styrkja þessa vegferð okkar til að koma pabba heim í íslenskt umhverfi, í hið íslenska heilbrigðiskerfi og til fólksins síns.“

UMMÆLI

Sambíó