SÍMEY brautskráði 57 nemendur

Hluti þeirra 57 nemenda sem brautskráðust. Mynd af simey.is

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar brautskráði í gær 57 nemendur af ýmsum námsbrautum við hátíðlega athöfn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg. Nemendur sem brautskráðust eiga að baki nám í Fræðslu í formi og lit, Opinni smiðju FAB LAB, „Help Start“ ensku, Íslensku sem öðru máli, Mannlega millistjórnandanum og Alvöru bókhaldsnámi, sem unnið var í samstarfi við Tölvufræðsluna á Akureyri.

Tveir brautskráningarnemendur, Þorbjörg Jónasdóttir og Axel Grettisson, ávörpuðu samkomuna fyrir hönd nemenda.

Þorbjörg Jónasdóttir var að ljúka náminu „Fræðsla í formi og lit“, sem er 300 klukkustunda nám sem hófst í janúar á þessu ári og var kennt á vorönn og þráðurinn tekinn aftur upp á haustönn, þeirri önn sem nú var að ljúka.

Í ávarpi sínu nefndi Þorbjörg að fyrstu kynni sín af SÍMEY hafi verið þegar hún fékk stutta en árangursríka leiðsögn í því að nota Ipad spjaldtölvuna sína. Síðan hafi hún ákveðið að drífa sig í myndlistarnámið hjá Billu og Guðmundi Ármanni og sjái alls ekki eftir því. Á skömmum tíma hafi nemendur lært ótrúlega mikið af þeim, bæði tæknilegum atriðum í myndlist og ekki síður hafi nemendur tileinkað sér það borðorð þeirra Billu og Guðmundar að þeir ættu fyrst og fremst að trúa á sig sjálfa. Þorbjörg sagði að það sem hún hafi lært í þessu námi ætti tvímælalaust eftir að nýtast sér vel og þá nefndi hún að félagsskapurinn í náminu hafi verið einstaklega skemmtilegur og gefandi og væri ljóst að nemendur myndu halda hópinn og vinna áfram að myndlistinni. „You ain‘t seen nothing yet,“ sagði Þorbjörg og vísaði til frægra orða fyrrverandi forseta lýðveldisins.

Axel Grettisson lauk í dag náminu „Mannlegi millistjórnandinn“, sem er lotunám, sett upp í samvinnu SÍMEY og Hagvangs. Loturnar fjórar eru: orkustjórnun, mannauðsstjórnun, samskipti og leiðtogahlutverk. Axel sagði í ávarpi sínu  að námið hafi verið sér afar gagnlegt og hann geti sannarlega mælt með því fyrir alla millistjórnendur fyrirtækja. Hann sagði öllum nauðsynlegt að standa upp úr sínum vinnustólum annað slagið og sækja sér endurmenntun. Ljóst væri að hann myndi nýta sér í sínu starfi ýmislegt sem hann hafi lært í þessu námi.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði við brautskráninguna að oft og tíðum væri mikið átak fyrir fólk að taka upp námsþráðinn og setjast á skólabekk eftir langt hlé. En löngunin til þess að fara út fyrir þægindarammann næði sem betur fer oft að yfirvinna óttann við að takast á við hið óþekkta.

Valgeir sagði að starfsemi SÍMEY hafi vaxið umtalsvert á þeim tæplega átján árum sem stofnunin hafi starfað. Í fyrirsjáanlegri framtíð sagðist hann telja að hlutverk símenntunarmiðstöðvanna í að gera starfsþróun og hæfni markhópsins sýnilegri verði mun veigameiri. Það verði gert með hæfnigreiningum, þróun á nýju raunfærnimati og uppbyggingu fyrirtækjaskóla. Hlutverk náms- og starfsráðgjafar sé og verði einnig mikilvægt í að leiðbeina fólki að fóta sig á nýjum brautum. Einnig muni dreifnám og þróun nýrra valkosta í því sambandi verða æ mikilvægari þáttur.

Í byrjun og lok brautskráningarinnar í dag söng Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir nokkur lög við gítarundirleik Daníels Starrasonar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó