NTC

Sjómannadeginum fagnað á Akureyri og í Hrísey

Sjómannadeginum fagnað á Akureyri og í Hrísey

Sjómannadegi verður fagnað í Hrísey og á Akureyri á sunnudaginn. Á Akureyri hefst dagurinn með sjómannamessu í Glerárkirkju en þar verður einnig lagður blómsveigur að minnismerki um drukknaða og týnda sjómenn. Klukkan 13 siglir eikarbáturinn Húni II ásamt hvalaskoðunarbátum frá Amabassador og Eldingu frá Torfunefsbryggju að Sandgerðisbót og þar bætist fjöldi smábáta við hópinn og verður siglt aftur saman inn á Poll. Öllum er velkomið að mæta á Torfunefsbryggju og sigla með án endurgjalds.

Í menningarhúsinu Hofi verður létt sjómannadagsstemning frá klukkan 14 til 17. Fram koma fimir og flinkir danshópar frá dansskólanum Steps Dancecenter, Haraldur Ingi Haraldsson fyrrum bæjarlistamaður verður með leiðsögn um sýningu sína Aðgerð/Gutted  en hún prýðir veggi Hofs, norðlensku tónlistarkonurnar Helga Kvam, Lára Sóley Jóhannsdóttir og Þórhildur Örvarsdóttir flytja sjómannalög, fluttir verða léttir harmonikkutónar og tónlistarfólkið Jónína Björg Gunnarsdóttir og Ívar Helgason flytja ljúfar dægurlagaperlur. Klukkan 16 og 17 verður hægt að sigla stuttan hring með Húna II um Pollinn og er ferðin án endurgjalds. Slysavarnadeildin á Akureyri verður í Hofi og selur merki sjómannadagsins, siglingaklúbburinn Nökkvi verður við höfnina við Hof með skútur og báta og hægt verður að kaupa ilmandi sjávarréttasúpu í götumáli hjá 1862 Bistro.

Í Hrisey verður sigling kl. 10 og messa í Hríseyjarkirkju í framhaldinu. Klukkan 13 hefst víðavangshlaup og er mæting við Hríseyjarbúðina. Í beinu framhaldi af hlaupinu verða leikir og sprell á hátíðarsvæði og við smábátabryggju. Reiptog, pokahlaup,skófluhlaup, vatnsblöðrukast, róðrarkeppni á kajökum, kappróður á gúmmíbátum fyrir börnin, sigling á björgunarsveitarbát o.fl. Klukkan 15 verður kaffihlaðborð í Íþróttahúsinu í samstarfi við Verbúðina 66. Hluti af innkomunni rennur til Björgunarsveitar Hríseyjar. Gengið verður í hús á föstudagskvöldið og seld sjómannadagsmerki.

Sambíó

UMMÆLI