Sjúkrahúsið á Akureyri rekið með 146,9 milljóna króna halla árið 2021

Sjúkrahúsið á Akureyri rekið með 146,9 milljóna króna halla árið 2021

Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) á árinu 2021 var markaður af baráttunni við Covid-19 faraldurinn sem hafði margvísleg áhrif á starfsemina. Þrátt fyrir það varð mikil aukning á ýmsum sviðum starfseminnar frá árinu áður. SAk var rekið með 146,9 milljóna króna halla. Hildigunnar Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins, segir nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu. Þetta er meðal þess sem kom fram á ársfundi sjúkrahússins, sem haldinn var fyrr í dag.

Áhrifin á starfsemina voru greinileg þegar toppar komu í Covid-19 faraldurinn með röskun á starfsemi dag- og göngudeilda, frestun valaðgerða á skurðstofum með óhjákvæmilegum áhrifum á lengingu biðlista og biðtíma. Hins vegar gekk almennt vel að veita nauðsynlega bráðaþjónustu, þrátt fyrir gríðarlega mikið álag á starfsfólk SAk.

Mikil aukning í starfseminni

Komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um tæp 24% milli ára og voru 7.268. Framkvæmdar voru 473 gerviliðaaðgerðir samanborið við 331 árið áður og nemur aukningin 43%. Farin voru 30% fleiri sjúkraflug en árið áður og voru flugin 807.

Almennum rannsóknum fjölgaði um tæp 20% sem og myndgreiningum sem fjölgaði um 23%. Skurðaðgerðum fjölgaði um 11% og var 3.181 aðgerð framkvæmd á árinu, að gerviliðaðgerðum meðtöldum. Legudagar voru 28.384 og fjölgaði  um 11%. Dvölum á legudeild fjölgaði um 22% og voru 6.330 á árinu.

Í heildina voru sjúklingar 13.598 talsins og fjölgaði um 22%. Meðallegutími var 4,5 dagar sem er stytting um 0,4 dag frá fyrra ári.

Á árinu fæddu 488 konur 491 barn, sem er fjölgun um tæp 26% á milli ára og næst mesti fæðingafjöldi frá upphafi. Viðtölum lækna á göngudeildum fjölgaði um tæp 16% og voru 13.666 á árinu. Þá fjölgaði komum í aðra göngudeildarstarfsemi um 8% og voru 12.577.

Mikilvægt að halda áfram að efla þjónustuna

Laun og launatengd gjöld voru 8.454,7 milljónir og hækkuðu um 751 milljón á milli ára. Alls störfuðu 960 einstaklingar við sjúkrahúsið,7 fleiri en árið áður. Karlar voru 170 og konur 790. Setnar stöður voru að meðaltali 561,6 og fjölgaði um 44,4 stöður á milli ára og kemur sú aukning helst vegna breytinga sem tengjast betri vinnutíma vaktavinnufólks. Árslaun á hverja stöðu voru að meðaltali 12,0 m.kr. Önnur gjöld, fyrir utan laun og afskriftir, námu 2.735,6 m.kr.

Heildarútgjöld vegna reksturs hækkuðu um 14,4% á milli ára og voru 11.190 milljónir króna samanborið við rúmar 9.785 milljónir árið áður. Rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 146,9 milljónir króna, sem fyrr segir.

„Rekstur sjúkrahússins er mikil áskorun. Halli hefur verið á rekstrinum og snúa þarf þeirri þróun við. Á sama tíma er mikilvægt að halda áfram að efla þjónustuna við íbúa samfélagsins, í takt við þarfir þeirra. Því er nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu,“ sagði Hildigunnur Svarsdóttir, forstjóri SAk.

Gæðavottanir endurnýjaðar

Í lok árs fékk sjúkrahúsið endurnýjaða alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni auk endurnýjunar á gæðastaðlinum ISO 9001:2015. Til viðbótar var unnið að endurnýjun upplýsingatæknivottunar skv. ISO27001 og jafnlaunavottunar. 

Skrifað var undir samning við Sjúkratryggingar Íslands um þjónustutengda fjármögnun SAk í desember 2021 en frá og með 1. janúar 2023 verður klínísk starfsemi sjúkrahússins fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu. Í gangi er mikil vinna til að koma á verklagi sem styður við framkvæmd slíkrar fjármögnunar.

Í framhaldi af breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og nýrri reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa nr. 1111/20, var stofnað fagráð við sjúkrahúsið, skipað af forstjóra. Hlutverk fagráðsins er fyrst og fremst að vera álitsgjafi forstjóra og framkvæmdastjórnar um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag stofnunarinnar.  

Veglegar gjafir og mikil velvild

Sjúkrahúsinu bárust gjafir frá Gjafasjóði SAk að upphæð 9,4 milljónir króna á árinu og frá Hollvinum SAk og öðrum velunnurum fyrir 8,9 milljónir. Bókfært verð tækjabúnaðar sem sjúkrahúsinu var gefinn á árinu er því 18,3 milljónir króna. Stærstu gjafirnar voru þrjú ný barnaborð /endurlífgunarborð fyrir nýbura og eru þau staðsett á fæðingadeild, barnadeild og svæfingadeild. Stjórnendur og starfsfólk SAk þakka þann velvilja og hlýhug í garð sjúkrahússins sem gjafirnar endurspegla.

Í lok árs kannaði Gallup viðhorf íbúa á Norður- og Austurlandi til þjónustu og starfsemi sjúkrahússins. Niðurstaðan var sú að 88% aðspurðra sögðust bera mikið traust til sjúkrahússins og 92% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægð með hana.

Heilbrigðisstofnun í fremstu röð

„Áskoranir og sóknarfæri“ var yfirskrift ársfundar SAk, sem haldinn var á SAk í dag en fundinum var líka streymt. Hildigunnur Svavarsdóttir, sem skipuð var forstjóri SAk frá og með 1. september 2021, sagði í ræðu sinni á fundinum að það mikla starf sem unnið var á SAk á liðnu ári hafi styrkt sjúkrahúsið enn frekar í sessi sem heilbrigðisstofnun í fremstu röð. 

Hildigunnur kynnti ennfremur endurskoðaða stefnu sjúkrahússins til ársins 2027. Hún sagði við það tækifæri að margar áskoranir væru framundan, m.a. varðandi þjónustu, rekstur og mönnun. „Við stöndum áfram sem „SAk fyrir samfélagið“ og ætlum okkur að verða leiðandi á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og öflugur vettvangur kennslu og rannsókna á heilbrigðissviði,“ sagði hún.

UMMÆLI