Prenthaus

Skemmtilegar nýjungar í miðbænum

Skemmtilegar nýjungar í miðbænum

Á undanförnum vikum hefur margt fallegt og skemmtilegt bæst við miðbæ Akureyrar. Á vef Akureyrarbæjar í dag er fjallað um nýjungarnar í miðbænum.

„Margt gleður augað í miðbæ Akureyrar og er sumt af því nýtilkomið. Rautt hjarta við suðurenda Göngugötunnar og regnbogabraut yfir Kaupvangsstræti vekja verðskuldaða athygli vegfarenda á meðan leiksvæði í Skátagilinu gleður yngstu kynslóðina,“ segir á vef bæjarins.

Hjartað var vígt með glæsilegri athöfn um síðustu helgi. Miðbæjarsamtökin stóðu að uppsetningunni í samstarfi við Akureyrarbæ. Hugmyndin er einkum sú að fólk staldri við og taki mynd af sér við hjartað og deili á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #loveakureyri.

Í næsta nágrenni við hjartað er annað listaverk. Ungmenni á aldrinum 14-16 ára sem eru í vinnuhóp í Rósenborg á vegum Vinnuskólans máluðu gangbrautina norðan við Hótel KEA í regnbogalitunum. Hugmyndin var komin frá þeim sjálfum og er ein af fjölmörgum spennandi tillögum þeirra til þess að lífga upp á bæinn í sumar. Líklegt er að fleiri verkefni komist til framkvæmda á næstunni.

Síðast en ekki síst ber að nefna nýtt leiksvæði í Skátagilinu. Þar hefur verið komið fyrir leiktækjum sem eiga að höfða til yngstu kynslóðarinnar. Markmiðið er fyrst og fremst að lífga upp á miðbæinn og gera hann að enn skemmtilegri stað fyrir fólk á öllum aldri og fjölskyldur til að koma saman og njóta lífsins.

Seinna í sumar verða fleiri leiktæki sett upp, þar á meðal rennibraut í Skátagilinu, hringekja og fleiri leiktæki á Ráðhústorgi. Einnig verða sett upp líkamsræktartæki á Eiðsvelli.

UMMÆLI