Skipsflak fannst fyrir tilviljun á botni OddeyrarálsMyndir: Vikublaðið

Skipsflak fannst fyrir tilviljun á botni Oddeyraráls

Frétt af vef Vikublaðsins:

Það má með sanni segja að þeir hafi ekki trúað sínum eigin augum þeir félagar Hörður Geirsson og Þórhallur Jónsson þegar þeir fóru að skoða myndir sem teknar voru með glænýjum dróna sem þeir félagar voru að prófa á Tangabryggju (Sverrisbryggju) fyrir framan Bústólpa í gær.

Dróninn sem er búin sérstaklega öflugri polarize linsu tók myndir sem sýna svo ekki er um villst ótrúlega stórt og að virtist heillegt skipsflak!

Vitað er um og hefur verið lengi að nokkuð sunnan við Oddeyrarbryggju er flak af skútu sem sökk á seinni hluta 19. aldar en ekki finnast neinar heimildir um skipskaða á Oddeyrarál hvað þá að um stórskip hafi verið að ræða!

Þessi skortur á heimildum bendir til þess að þetta flak sé mjög gamalt etv frá 17 öld. Það mun skírast þegar búið verður að aldursgreina sýni sem tekin voru úr flakinu i gær þegar kafari fór niður að því.

Ekki oft orðlaus

,,Ég verð ekki oft orðlaus en svei mér þá það varð ég þegar ég sá þessar ótrúlegu myndir“ sagði Þórhallur Jónsson í samtali við vefinn. ,,Aldrei hefði mér dottið í hug að Oddeyraráll byggi yfir þessum leyndardómi“ bætti hann við. ,,Ég hef margt myndað og séð en ekkert hef ég upplifað í líkingu við þetta sagði Hörður Geirsson ljósmyndari og ,,flugstjóri“ drónans í þessari ferð. ,,Fyrir mann eins og mig sem starfar við minjar alla daga þá er þetta nú hreinlega eins og að vinna Euro Jackpot“ bætti hann við.

Vefurinn hafði samband við hafnarstjóra Sigurð Pétur Ólafsson en hann varðist allra frétta sagði málið viðkvæmt og að fæst orð hefðu minnsta ábyrgð.

Starfsmenn frá Minjastofnun munu svo væntanlegir hingað norður eftir helgi til að skoða lausa muni sem taka mátti úr flakinu og fara með þá eins og áður sagði í aldursgreiningu. Einnig munu þeir nota ferðina til þess að skoða nokkur hús á Eyrinni en kannski segjum við nánar um það seinna.

Hægt að skoða munina

Eftir hádegi í dag milli kl 14-16 verður hægt að skoða munina sem búið er að bjarga úr flakinu, það verður í Vitanum sem staðsettur er á Oddeyrarbryggju og eru allir hjartanlega velkomnir.

Skipið er stórt og ótrúlega heillegt. Drónamynd: Hörður Geirsson.
Sambíó

UMMÆLI