Skipulagsráð Akureyrarbæjar telur ekki rétt að byggðin á Oddeyri verði eins há og gert er ráð fyrir í tillögum að breyttu aðalskipulagi. Skipulagsstofnun telur að bærinn hafi ekki staðið rétt að undirbúningi eða kynningu á þessari háhýsabyggð eins og greint er frá á Rúv.
Eins og kunnugt er orðið samþykkti bæjarstjórnin tillögu og breytingu á aðalskipulagi fyrir Oddeyri vegna hugmynda SS Byggis um að byggja þar 6-11 hæða fjölbýlishús. Í aðalskipulaginu hafði verið gert ráð fyrir mun lágreistari byggð og því ullu þessar hugmyndir miklum usla meðal bæjarbúa sem hafa ýmist lofað eða lastað þessar tillögur. Kynningarfundur var haldinn 20 dögum eftir að tillagan var samþykkt í bæjarstjórn þar sem fullt var út úr dyrum og margir lýstu áhyggjum sínum af skipulaginu.
36 bréf bárust Skipulagsráði ásamt umsögnum frá fyrirtækjum
Alls bárust Skipulagsráði Akureyrarbæjar 36 bréf með athugasemdum vegna fyrirhugaðra breytinga ásamt umsögnum frá nokkrum opinberum stofnunum. Isavia var meðal þeirra stofnanna en þeir telja að háhýsin geti mögulega truflað flugumferð sem Samgöngustofa tók einnig undir í sinni umsögn. Minjastofnun leggst gegn háhýsabyggð á þessum stað í sinni umsögn og Hafnarsamlag Norðurlands telur byggingarnar geta þrengt að hafnarstarfsemi. Þá telur hverfisnefnd Oddeyrar að slík háhýsabyggð eigi ekki heima á þessum stað.
Skipulagsstofnun gagnrýnir hvernig staðið var að kynningu skipulagsins
Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að ljóst sé að hugmyndirnar feli í sér þéttari og hærri byggð en stefnt er að í rammaskipulagi Oddeyrar. Þetta muni fela í sér breytingu á ásýnd Oddeyrar og bæjarmynd Akureyrar. Skipulagsstofnun gagnrýnir þess að auki hvernig staðið var að kynningu af hálfu bæjarins. Mikilvægt sé að við svo veigamiklar breytingar í gróinni byggð, verði íbúar og aðrir hagsmunaaðilar að geta fylgst með og komið að mótun slíkrar tillögu á vinnslustigi. Þá sé óljóst hvaða forsendur liggi að baki svo viðamiklum breytingum á aðalskipulagi.
Ekki rétt að reisa svona háa byggð á Oddeyrinni
Á fundi skipulagsráðs í gær komst ráðið að þeirri niðurstöðu, miðað við framkomnar athugasemdir, að ekki sé rétt að reisa eins háa byggð og lýst hefur verið á Oddeyrinni. Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, sagði í samtali við Rúv nú rétt fyrir fréttir að áður en málið fari aftur fyrir bæjarstjórn þurfi að þróa skipulagatillögurnar áfram og gera á þeim breytingar. Síðan þurfi að kynna þær aftur fyrir í búum og öðrum sem hafi hagsmuna að gæta.
UMMÆLI