Skoða það að taka tveggja metra regluna upp aftur

Skoða það að taka tveggja metra regluna upp aftur

Lögreglan á Norðurlandi eystra deildi í kvöld fréttatilkynningu vegna Covid-19 á Facebook-síðu sinni þar sem farið er yfir nýjustu tíðindi vegna faraldursins. Fólk er minnt á að fara varlega yfir Verslunarmannahelgina. Fréttatilkynninguna má lesa hér að neðan:

Heilbrigðisráðherra fundaði nú síðdegis með almannavörnum, landlækni, sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra vegna kórónuveirusmita sem eru í samfélaginu. Tuttugu og fjórir eru í einangrun með staðfest smit, þar af 14 innanlandssmit og 173 eru í sóttkví.

Ekki hefur tekist að rekja tvö innanlandssmit en unnið er að smitrakningu og raðgreiningu sýna.

Á fundi með heilbrigðisráðherra í dag var meðal annars rætt hvort þurfi að herða gildandi samkomutakanir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þá er einnig til skoðunar að tveggja metra nándarmörkin verði tekin upp að nýju. Þau verði ekki lengur tilmæli heldur regla. Þá er verið að greina betur gögn frá landamæraskimun til að meta hvort þurfi að breyta áherslum eða herða aðgerðir á landamærum. Þá var einnig rætt um að hækka viðbúnaðarstig almannavarna. Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum enda beðið gagna og upplýsinga úr greiningu sýna. Ákvörðun mun meðal annars byggja á ofangreindum niðurstöðum. Samráðshópur mun koma aftur saman til fundar á morgun.

Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld hafa áhyggjur af komandi Verslunarmannahelgi þar sem viðbúið er að margir verði á faraldsfæti og hætta á að smit geti borist enn frekar út í samfélaginu. Áríðandi er að fólk taki upp og haldi á lofti einstaklingsbundnum sóttvörnum, virði tilmæli um nándarmörk og verndi viðkvæma hópa. Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til þess að skerpa á sóttvörnum og leiðbeiningum. Þá er áríðandi að fólk virði einangrun, sóttkví og taki heimkomusmitgát af fyllstu alvöru.

Helstu einkenni COVID-19 sýkingar eru ekki alltaf þau sömu, en minna á venjulega flensu. Einkenni geta verið aðeins eitt af eftirtöldu, það er hiti, hálssærindi, hósti, slappleiki, bein- og vöðvaverkir og skyndilega breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni. Hafi fólk grun um smit á að halda sig heima, hafa samband við sína heilsugæslu í gegnum síma, við netspjall Heilsuveru.is eða við Læknavaktina í síma 1700. Heilbrigðisstarfsfólk mun þar ráðleggja um næstu skref og hvar sýnataka muni fara fram ef þarf.

Sambíó

UMMÆLI