NTC

Fjögurra stjörnu hótel og stækkun Skógarbaðanna

Fjögurra stjörnu hótel og stækkun Skógarbaðanna

Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum hafa undirritað viljayfirlýsingu um hönnun, uppbyggingu og rekstur fjögurra stjörnu hótels við hlið Skógarbaðanna í Eyjafirði. Hótelið verður með 120 herbergi, fjögurra hæða, auk þakhæðar með útsýni yfir Eyjafjörðinn.

Gert er ráð fyrir að á hótelinu verði veitingastaður, ráðstefnu- og veislusalur ásamt heilsulind. Þá er horft til þess að stækka baðhluta Skógarbaðanna þannig að hann muni tengjast hótelinu.

„Þetta er virkilega spennandi verkefni sem við hjá Íslandshótelum hlökkum mikið til að takast á við og bjóða upp á úrvalsgistingu í því fagra umhverfi sem umlykur Skógarböðin. Íslandshótel halda uppbyggingu sinni áfram og tryggja með þessu enn eina perluna í röð hótela um land allt,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.

Basalt arkitektar er hönnunaraðili hótelsins. Reiknað er með að fjárfestingin í hótelinu verði um fimm milljarðar króna og áætlað að það opni á vormánuðum 2026.

„Við erum afar spennt fyrir þessu verkefni og stórhuga draumar okkar um hótel tengt við Skógarböðin eru nú að rætast. Við viljum gera okkar til að byggja áfram upp ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda getur hótel hér einnig stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflugi til Akureyrar,“ segja Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson, aðaleigendur Skógarbaðanna.

Sambíó

UMMÆLI