Skráning í Vísindaskóla unga fólksins hafin

Mynd: unak.is

Vísindaskóli unga fólksins verður í Háskólanum á Akureyri í sumar en þetta verður í þriðja skiptið sem skólinn er starfræktur. Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum 11-13 ára og markmið hans er að opna börnum gátt inn í heim vísinda og leyndardóma lífsins. Skráning er hafin en undanfarin ár hafa færri komist að en vilja. Skólastarfið fer fram vikuna 19-23. júní.

Í ár verður unnið með umhverfis og orkumál, búin til hljóðfæri og tónlist tekin upp og fræðst um forritun svo fátt eitt sé nefnt.

„Stuðningur samfélagsins við þetta metnaðarfulla verkefni hefur verið okkur ómetanlegur,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins í samtali við heimasíðu Háskólans á Akureyri.  Hún segir að drengir ekki síður en stúlkur hafi sótt skólann en það sé sérstaklega mikilvægt.

„Við þurfum að nota allar færar leiðir til þess að opna augu drengja fyrir gildi náms og opna augu þeirra fyrir fjölbreyttum störfum. Viðbrögð þeirra sem við höfum leitað til eftir stuðningi við verkefnið hafa verið einstök. Akureyrarbær, KEA og Norðurorka eru stærstu styrktaraðilarnir en fjölmargir aðrir hafa veitt okkur fjölbreyttan og ómetanlegan stuðning. Nokkur félagasamtök styrkja sérstaklega börn sem hefðu annars ekki átt kost á að skrá sig í skólann.“

Skráning fer fram á heimasíðu skólans www.visindaskoli.is

UMMÆLI

Sambíó