Skrifa undir samning um áframhaldandi samstarf

Þór/KA verður til næstu þrjú árin hið minnsta.

Þór og KA munu undirrita samstarfssamning um rekstur á sameinuðu kvennaliði félaganna í fótbolta á morgun, fimmtudag. Þetta staðfesti Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður ÍBA, við Kaffið.is nú rétt í þessu.

Samkvæmt heimildum okkar er samningurinn til þriggja ára og er meðal annars kveðið á um að leikið verði í nýjum, hlutlausum búningum sem eru nú þegar farnir í framleiðslu.

Samningurinn verður undirritaður af forráðamönnum beggja félaga á Glerártorgi í hádeginu á morgun.

Mikill styr myndaðist í kringum samstarf félaganna í kjölfar tilkynningar KA í ársbyrjun um að félagið hygðist slíta á öll tengsl við Þór. Upphófst mikil og eldheit umræða sem endaði með því að ÍBA steig inn í málið. Í kjölfarið voru myndaðir vinnuhópar um framtíð samstarfsins.

Á sama tíma var myndaður vinnuhópur um framtíð samstarfs í kvennahandboltanum. Er sú vinna enn í gangi og gengur vel að sögn Geirs.

Sambíó

UMMÆLI