Gæludýr.is

Smáframleiðendur sameinast í Matsjánni

Smáframleiðendur sameinast í Matsjánni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Matsjána, verkefni sem er ætlað smáframleiðendum matvæla sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni. Matsjáin fer fram á 14 vikna tímabili frá 6. janúar til 7. apríl og samanstendur af sjö lotum með heimafundum/jafningjaráðgjöf, fræðslu og erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Verkefnið fer fram á netinu þvert á landið og lýkur með veglegri uppskeruhátíð þar sem þátttakendur hittast í raunheimi.

Verkefnið hlaut styrk úr Matvælasjóði og er byggt upp að fyrirmynd Ratsjárinnar sem er verkefni fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu þróað af Íslenska ferðaklasanum. Samtök smáframleiðanda matvæla og landshlutasamtök sveitarfélaga um land allt standa að Matsjánni en verkefnisstjórn er í höndum RATA.

,,Eitt af megin markmiðum Samtaka smáframleiðenda matvæla er að hámarka ávinning félagsmanna af aðild og lykil áhersluverkefni að auka þekkingu og þróa verkfæri sem geta nýst þeim í þeirra rekstri. Við sóttum því um styrk í Matvælasjóð til að bjóða upp á metnaðarfullt fræðsluverkefni í samstarfi við landshlutasamtökin – sem myndi einnig stuðla að auknu samstarfi og samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt sem er einmitt megintilgangur samtakanna. Við erum stolt af því að geta stutt við bakið á okkar félagsmönnum og bjóðum alla aðra smáframleiðendur sem vilja slást í hópinn velkomna.“ (Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla)

Matsjáin mun snerta á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag en endanleg dagskrá mun vera unnin í samstarfi við þátttakendur sem geta með kosningu haft áhrif á þá fræðslu sem boðið verður upp á. Listi yfir möguleg umfjöllunarefni er að finna inn í umsóknarforminu hér. Meðal ávinninga af þátttöku má nefna að efla fókus í starfsemi og framleiðsluferli, öðlast ný verkfæri og þekkingu, aukin leiðtogafærni, koma auga á ný viðskiptatækifæri og aukið tengslanet og mögulegt samstarf meðal þátttakenda.

,,Landshlutasamtökin tóku þátt í Ratsjánni fyrr á árinu og var mikil ánægja meðal þátttakenda og samtakanna með fyrirkomulagið og fræðsluna. Eftir samtal við SSFM sáum við að það var tækifæri á að nýta hugmyndafræðina í fleiri greinum og þróa verkefni fyrir smáframleiðendur matvæla. Við teljum verkefnið vel til þess fallið að efla stjórnendur í matvælaframleiðslu, ýta undir nýsköpun og vöruþróun í greininni og ekki síst stórefla tengslanetið á milli aðila sem getur ýtt undir samstarf og ný viðskiptatækifæri – allt þetta þvert á landið.“ (Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV)

Umsóknarfrestur er til 20. nóvember og verkefnið hefst með kynningarfundi 2. desember kl. 15:00. Matsjáin hefst svo formlega 6. janúar og lýkur 7. apríl. Þátttökugjald í Matsjánni er kr. 30.000, innifalið er gjaldfrjáls aðild að SSFM fyrir árið 2022. Þátttökugjald í Matsjánni fyrir núverandi félagsmenn SSFM er 15.000 kr.

Umsóknina má nálgast hér: Umsókn í Matsjána 2022

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó