Prenthaus

Snævar Óðinn ræðir kynleiðréttingarferlið: „Á endanum er þetta algjörlega þess virði“

Snævar Óðinn ræðir kynleiðréttingarferlið: „Á endanum er þetta algjörlega þess virði“

Snævar Óðinn Pálsson er 29 ára Akureyringur sem vinnur hjá Póstinum. Hann hóf kynleiðréttingarferli sitt árið 2014 og hefur síðan þá farið í eina til tvær aðgerðir á ári. Hann segist ekki enn vera búinn í öllum sínum aðgerðum en þrátt fyrir það sé ferlið algjörlega þess virði.

Snævar hitti Óttar Guðmundsson, geðlækni, í mars árið 2014 og í kjölfarið tóku við um það bil 12 mánuðir þar sem hann sagði sínum nánustu frá ferlinu og lifði í samfélaginu í „nýju“ hlutverki.

„Ég fór í sálfræðiviðtöl og hitti innkirtlasérfræðinga, þeir sjá um að skrifa upp á hormóna. Tæplega ári síðar í febrúar 2015 byrjaði ég á hormónum, fæ Testósterón sprautur á 10 vikna fresti og verð á svoleiðis sprautumeðferð allt mitt líf, þar sem líkaminn minn framleiðir ekki nægilegt magn af þeim hormónum sem ég þarf.  Síðan hef ég farið í 1 til 2 aðgerðir á ári og er ekki ennþá búinn í þeim aðgerðum sem ég þarf.“

Snævar segir að ferlið sé langt og strangt og að það sé mikilvægt að hugsa vel um andlegu hliðina. Það fyrsta sem hann vill segja þeim sem að eru í sömu aðstæðum og hann er að þjálfa þolinmæðina vel. Hann á nú enn eftir að fara í eina til tvær aðgerðir í viðbót.

„Þú getur þurft að bíða í marga mánuði, jafnvel ár, til að komast í aðgerð eða byrja á hormónum, allt tekur þetta tíma en á endanum er þetta algjörlega þess virði,“ segir Snævar í spjalli við Kaffið.

Snævar segir það vera allt öðruvísi að ganga í gegnum svona ferli sem einstaklingur sem býr utan höfuðborgarsvæðisins, aðallega vegna þess að þar fer öll læknisþjónusta fram.

„Við sem búum á landsbyggðinni þurfum því að fara í allar læknisheimsóknir og þess háttar í Reykjavík. Þó eru sumar aðgerðir sem Sjúkrahúsið á Akureyri býður upp á en þá eru læknar utan transteymisins sem framkvæma þær. Hægt er að deila um það hvort það sé erfiðara að búa hérna á Akureyri og vera í þessum sporum. Hef sjálfur pælt mikið í því hvort ferlið mitt hefði verið mikið öðruvísi ef ég hefði flutt suður en niðurstaðan er sú, fyrir mitt leiti, að ég hef 100 prósent stuðning frá fjölskyldu og vinum sem eru flest öll búsett hér á Akureyri, ég tek það fram yfir þægindin að búa í þægindum borgarinnar,“ segir Snævar.

Hann bendir þá á það að sjúkratryggingar Íslands taka þátt í ferðakostnaði innanlands þar sem að þjónustan er bara í Reykjavík. Þannig að þrátt fyrir að hann hafi oft þurft að ferðast suður þá borgi hann ekki allt sjálfur.

Snævar segist hafa orðiði fyrir smávegis fordómum hér heima en það sé í flestum tilfellum vegna fáfræðslu og hræðslu við hið óþekkta.

„Yfirleitt vill ég ekki tengja það hugtak sem slíkt við mína reynslu. Ég held að viðmót fólks sé bara almennt mjög mismunandi. Það fer ekkert endilega eftir búsetu en það getur þó spilað inn í. Í smærri bæjarfélögum þar sem það er ekki mikið um trans fólk þá er líklegt að fordómar blossi frekar upp.“

Hann segir að þess vegna sárvanti fræðslu og umræðu um slík málefni og að við sem samfélag þurfum að vera duglegri að skiptast á reynslu okkar og sögum.


UMMÆLI