Söfn á Norðurlandi koma vel út í nýrri rannsókn

Söfn á Norðurlandi koma vel út í nýrri rannsókn

Ferðamenn sem fara á söfn á Norðurlandi eru ánægðir með heimsóknir þangað, innlendir sem erlendir ferðamenn. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála vann að beiðni Markaðsstofu Norðurlands, en niðurstöður hennar voru kynntar á ráðstefnu á Hótel Kea í dag.

97% svarenda í könnun RMF sögðust annaðhvort vera ánægðir eða mjög ánægðir með heimsóknir á söfnin og 90% sögðust ætla mæla með því við fjöldskyldu og vini að þeir gerðu slíkt hið sama. Niðurstöðurnar eru mjög ánægjulegar fyrir sögutengda ferðaþjónustu á Norðurlandi og raunar alla ferðaþjónustu, því góð upplifun ferðamanna er auðvitað lykilatriði í allri þróun greinarinnar.

Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann einnig skýrslu fyrir Markaðsstofu Norðurlands, upp úr könnuninni Dear Visitors sem hefur verið unnið markvisst með frá árinu 2004. Þar kom fram að ferðamenn á Norðurlandi eru talsvert líklegri til að skoða söfn eða sýningar en hinn almenni ferðamaður á Íslandi, og því megi gera ráð fyrir því að slík afþreying dragi ferðamenn inn í landshlutann upp að nokkru marki. Ferðamenn á Norðurlandi eru sömuleiðis líklegri til þess að skoða kirkjur og fræga sögustaði.

Á ráðstefnunni voru einnig erindi frá Ingu Hlín Pálsdóttir um menningu og sögu í landkynningu á vegum Íslandsstofu, Aníta Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins sagði frá reynslu af rekstri safnsins, Svanhildur Pálsdóttir kynnti starfsemi 1238:Battle of Iceland og Einar K. Jónsson sveitarstjóri Húnavatnshrepps kynnti áform um uppbyggingu við Þrístapa og sögutengda ferðaþjónustu þar.

Hér má skoða skýrslu RMF – Söguferðaþjónusta á Norðurlandi 2019

Hér má skoða skýrslu RRF – Norðurland 2018, erlendir ferðamenn, menningararfur og dýraskoðun

UMMÆLI

Sambíó