Prenthaus

Sóldís segist hafa orðið fyrir fordómum á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna starfs síns

Sóldís segist hafa orðið fyrir fordómum á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna starfs síns

Sóldís Nancy Jónsdóttir segir að starfsfólk á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafi komið öðruvísi fram við hana vegna þess að hún heldur úti Only Fans aðgangi. Sóldís segir að hún hafi upplifað það að enginn hafi trúað henni og að hún hafi verið sett í óþægilegar aðstöður þegar hún leitaði læknisaðstoðar. Þetta kemur fram í umfjöllun DV.

Sóldís fór á Sjúkrahúsið á Akureyri vegna verkja í baki, hún fékk fyrst þær upplýsingar að það væri líklega um að ræða nýrnasteina og fékk sýklalyf. Eftir það héldu verkirnir þó áfram og þegar hún mætti aftur var hún send til sérfræðings.

Hún segir að sérfræðingurinn hafi tilkynnt henni að starfsfólkið á sjúkrahúsinu hafi lesið frétt um hana og Only Fans aðgang hennar sem birtist á DV í apríl. Hún segir að hún hafi tilkynnt sérfræðingnum það að hún væri einungis að selja erótísk myndbönd af sjálfri sér og væri ekki að selja kynlíf.

„Ég segist vera í sambandi og að ég sé bara að sofa hjá kærastanum mínum en það sást vel á andlitinu hennar að hún var ekkert að trúa mér,“ segir Sóldís í samtali við DV. Sóldís hitti síðan annan hjúkrunarfræðing og er beðin um að skila inn þvagprufu og fara á kvennadeild til þess að hitta kvensjúkdómalækni. Sóldís segir að á þessum tímapunkti hafi henni farið að líða verulega illa.

„Ég mæti óundirbúinn til kvensjúkdómalæknis sem mér fannst mjög vont vegna þess að eftir að ég lenti i kynferðislegu ofbeldi þá vil ég fá að undirbúa mig vel andlega áður að ég mæti til kvensjúkdómalæknis. Þarna fékk ég alls ekkert slíkt val,“ segir hún á DV þar sem kemur einnig fram að í skoðuninni hafi ekki fundist neitt óeðlilegt í þvagprufunni.

„Ég er bara ennþá að reyna að ná mér eftir að hafa verið neydd til kvensjúkdómalæknis, ég hef ekkert slæmt um lækninn, hjúkrunarfræðinginn eða kvensjúkdómalækninn að segja. Það var þessi sérfræðingur sem bara rústaði sjálfstraustinu mínu þarna með þessum athugasemdum sínum og mér leið ömurlega. Ég fór að gráta á biðstofunni því ég var svo lítil í mér eftir þetta. Mér fannst eins og enginn væri að hlusta á mig þegar ég var alltaf að segja að ég væri bara að sofa hjá kærastanum mínum og að ég hefði engar áhyggjur að hann væri að sofa hjá öðrum en mér.“

Í svari við fyrirspurn Kaffið.is vegna málsins segir Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins að Sjúkrahúsinu á Akureyri sé ekki heimilt að tjá sig um mál einstakra sjúklinga.

UMMÆLI