Sóley Margrét tryggði sér Evrópumeistaratitil

Sóley Margrét tryggði sér Evrópumeistaratitil

Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir tryggði sér Evrópumeistaratitil í +84kg flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum í Thisted í Danmörku á sunnudaginn. Sóley keppti í flokki fullorðna og sigraði með yfirburðum þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gömul og eiga eitt ár eftir í unglingaflokki.

Sóley lyfti 270 kg í hnébeygju og voru allar lyftur gildar hjá henni þar. Í bekkpressu fóru 182,5 kg upp í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hún við 190 kg en fékk þá lyftu dæmda ógilda þrátt fyrir að hún færi alla leið upp með tvö rauð ljós gegn einu hvítu. Í réttstöðulyftu lyfti hún 207,5 kg og voru allar lyftur gildar hjá henni þar. Samtals 660 kg, en næsti keppandi lyfti 622,5 kg. Sóley hlaut gull í hnébeygju og bekkpressu og silfur í réttstöðu.

„Öll framganga Sóleyjar í keppninni í dag einkenndist af öryggi og yfirvegun. Við óskum Sóleyju innilega til hamingju með frábært afrek og verðskuldaðan titil. Hún er íþróttinni og landinu til sóma,“ segir í tilkynningu á vef Kraflyftingasambands Íslands.

Akureyringurinn Alex Cambray Orrason frá KA keppti einnig á mótinu en hann lenti í fimmta sæti í sínum flokki.

„Undirbúningur fyrir mótið hafði gengið mjög vel og Alex hefur sjaldan verið í betra formi en nú. Hann var svo óheppinn að veikjast rétt fyrir mótið af því sem nú er komið í ljós að var streptókokkasýking. Við óskum Alex til hamingju með góðan árangur. Það er ljóst að hann ætlar sér stærri hluti á komandi tímum og hefur alla burði til að taka stór skref frammávið. Við fylgjumst spennt með,“ segir á vef Kraftlyftingasambandsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó