Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Soroptimistar fjölmenna til Akureyrar um helgina

Soroptimistar fjölmenna til Akureyrar um helgina

Á þriðja hundrað konur eru væntanlegar til Akureyrar um helgina á landssambandsfund Soroptimista. Undirbúningur hefur gengið vel og búist við árangursríku þingi. 

Alls starfa um 650 konur í 19 klúbbum víðsvegar um land í þessum alþjóðlegu samtökum kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. 

Síðast funduðu Soroptimistar á Akureyri um 200 saman á norrænum vinadögum árið 2018 en landssambandsfundur var síðast haldinn hér árið 2007, svo það var talið löngu tímabært að fá systur norður. Það eru Soroptimistar á Akureyri og Tröllaskaga sem hafa veg og vanda að undirbúningi og utanumhaldi fundarins. 

Arna Rún Óskarsdóttir forseti Akureyrarklúbbsins segir það afar skemmtilegt að fá allar þessar frábæru konur í heimsókn til Akureyrar á Landssambandsfund. “ Verkefni okkar eru mörg og um þau munum við fjalla á fundinum en við munum líka spjalla og eiga saman yndislegar stundir. Soroptimistasamtökin eru samtök kvenna sem vilja láta til sín taka á sviði mannréttinda öllum til handa og standa saman í baráttu fyrir réttindum kvenna og stúlkna með alþjóðlega vináttu og skilning að leiðarljósi.“

Móttaka verður í húsnæði Menntaskólans kl. 18.00 á föstudag en síðan hefst landssambandsfundurinn á laugardagsmorgni og lýkur með hátíðarkvöldverði. 

Hver eru verkefni Soroptimista ? 

Soroptimistar standa árlega fyrir átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem kallast „Roðagyllum heiminn“.Soroptimistasamband Íslands hefur lagt Kvennaathvarfinu, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð  lið á ýmsan hátt. Verndun umhverfis og náttúru er viðfangsefni margra klúbba með stuðningi sambandsins. Verkefni sem lúta að menntun og valdeflingu kvenna eru auk þess áberandi í starfi Soroptimista. Sjálfstyrking ungra stúlkna er á verkefnalista margra klúbba og einnig aðstoð við konur af erlendum uppruna og fleira í þeim dúr.Víða eru í gangi verkefni til stuðnings konum og börnum.  Fjármögnun á aðstöðu fyrir fatlaða, bókagjafir til verðandi foreldra, aðstoð við fólk með fötlun og tækjagjafir til kvenna- og fæðingardeilda eru dæmi um slíkt.

Hvaðan kemur þessi félagsskapur ? 

Soroptimistahugsjónin verður til um svipað leyti í Bandaríkjunum og Bretlandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Ástæðuna má rekja til þess að konur höfðu látið meira að sér kveða í fyrri heimsstyrjöldinni og eftir að henni lauk voru konur í lykilstöðum á ýmsum sviðum og höfðu þörf fyrir vettvang til að láta að sér kveða. Fyrsti klúbburinn var stofnaður með áttatíu konum í Oakland í Kaliforníu árið 1921.Þann 19. september 1959 var fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslands, Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur. Það voru 18 konur, sem sátu þann stofnfund.

Soroptimistar á Íslandi hafa unnið mörg góð verk í gegnum tíðina en fyrstu árin voru þau verkefni öll unnin í hljóði og enginn vissi hvað þessi samtök stóðu fyrir en í dag er þetta breytt. Soroptimistar vilja vera sýnilegar og vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna um heim allan. Allar nánari upplýsingar má finna á https://www.soroptimist.is

Á mynd: Nokkrir Soroptimistar gera gjafapokana klára fyrir landssambandsfundinn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó