NTC netdagar

Sovéski glæsikagginn fimmtugur í dagVésteinn og Volgan í sólinni

Sovéski glæsikagginn fimmtugur í dag

Akureyringurinn Vésteinn Finnsson á merkilega bifreið: Upprunalega Volga GAZ-24. Bíllinn er skráður til Íslands þann 24. maí 1974 og í dag er því bíllinn fimmtíu ára gamall upp á daginn. Bílinn erfði hann frá foreldrum sínum sem fluttu hann til landsins í gegnum B&L á sínum tíma, en Vésteinn tók við bílnum árið 1997, þá keyrður um það bil 39 þúsund kílómetra.

Síðan þá hefur Vésteinn sinnt bílnum af mikilli eljusemi og sýnt hann á ófáum fornbílasýningum víðsvegar um landið. Bíllinn fær líka þá hvíld sem svo gamall bíll a skilið, en Vésteinn hefur ekki keyrt hann nema 15 þúsund kílómetra á 27 árum. Bíllinn er því keyrður 54 þúsund kílómetra í dag. Vésteinn segist fylla á bensíntankinn um það bil einu sinni til tvisvar á ári.

Það var dóttir Vésteins, Inga Elísabet Vésteinsdóttir, sem benti Kaffinu á afmælisdaginn: „Bíllinn er nánast algerlega orginal, var geymdur lengi undir teppi í bílskúr þeirra gömlu, en núna vekur hann alltaf mikla athygli á sýningum Fornbílaklúbbsins. Djásnið er nú bara heima á plani hjá föður mínum, hreinn og glansandi í dag,“ segir í tölvupósti sem hún sendi Kaffinu.

Bílnum fylgja enn í dag ótrúlegustu pappírar. Má þar nefna kvittun fyrir upprunalegu kaupum foreldra Vésteins á bílnum og nákvæma bensíndagbók frá fyrsta degi. Þar að auki liggur fyrir nákvæm smurbók frá fyrsta degi og ýmislegt fleira.

Það eru eflaust ófáir Akureyringar á ýmsum aldri sem kannast við Volguna hans Vésteins, en bíllinn hefur alltaf átt heima á Akureyri, nánar tiltekið á Byggðaveginum, fyrir utan stutt stopp á Hrafnagili. Bíllinn var lengi á Byggðavegi 119, en Vésteinn fluttist svo inn á Hrafnagil um 5 ára skeið og bíllinn með. Þegar hann flutti aftur til Akureyrar flutti hann svo í húsið við hliðina á því gamla, Byggðaveg 121. Bíllinn hefur aldrei farið í gegnum skoðun annars staðar en á Akureyri, fyrst hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins og síðan hjá Frumherja.

Vésteinn ræddi við fréttaritara og sagði útlendinga vera sérstaklega forvitna um bílinn. Hann hafi fengið margar spurningar frá ferðafólki um það hvernig þessi bíll hafi endað hér á landi. Sérstaklega er fólk frá fyrrum Sovétríkjum áhugasamt um bílinn, líkt og rússneskur maður sem sagði Vésteini frá því að afi sinn hafi átt samskonar bíl.

Fyrsta síða bensíndagbókarinnar. Þann 25. maí, daginn eftir afhendingu, er fyllt á í Reykjavík og lagt af stað norður með bensín stoppi í Staðarskála. 26. maí er svo bíllinn kominn norður og fyllt á á Akureyri.
Sambíó

UMMÆLI