Staða Akureyrar sterk í sjávarútvegi

Staða Akureyrar er afar sterk í sjávarútvegi samkvæmt nýrri skýrslu sem gerð var af Íslandsbanka. Öflugasta fyrirtækið á því sviði , þó víðar væri leitað, er Samherji hf.

Aflamark Samherja Ísland ehf. á fiskveiðiárinu 2017 til 2018 er rúmlega 22 þúsund þorskígildistonn eða sem samsvarar tæplega 5,9% af úthlutuðum kvóta. Annað dótturfyrirtæki Samherja– Útgerðarfélag Akureyringa – fékk úthlutað aflamarki sem samsvarar 8.382 tonnum í þorskígildum talið.

Þó að landaður afli sé töluvert minni en á síðustu öld þá eru framleiðsluverðmæti sjávarafurða sem framleidd eru á Norðurlandi eystra gríðarleg.

Í skýrslunni er einnig talað um hvað Norðurland státar af öflugum fyrirtækjum en mörg af stærstu fyrirtækjum landsins eru starfandi á Norðurlandi. Þar má nefna fyrirtæki í útgerð, matvælaframleiðslu, í orkugeiranum og í ferðaþjónustu. Árið 2015 voru rúmlega 6,7% allra fyrirtækja á landi starfandi á Norðurlandi eystra en einungis eru fleiri fyrirtæki starfandi á höfuðborgarsvæðinu.

Ásamt Samherja má nefna  Höld sem m.a. rekur Bílaleigu Akureyrar, sem er stærsta bílaleiga landsins. Einnig má nefna Hótel KEA, Norðurorku, Norðlenska matborðið ehf., Kjarnafæði, Ferro Zink (Sandblástur og málmhúðun), Kæliverksmiðjuna Frost, Rafeyri, Slippinn, Íslensk verðbréf og svo mætti lengi telja. Á svæðinu eru einnig starfrækt öflug bygginga- og verktakafyrirtæki.


UMMÆLI