Múlaberg

Stærsta sýning leikfélags MA til þessa

Frumsýning á LoveStar eftir Andra Snæ Magnason í Hofi

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir LoveStar, eftir Andra Snæ Magnason, í Hofi á Akureyri í kvöld. Yfir 70 menntaskólanemar koma að uppsetningunni sem er sú stærsta sem leikfélagið hefur ráðist í og leikmynd, búningar, förðun, hárgreiðsla, tónlist og dans eru alfarið í höndum nemenda. Unnið er eftir leikgerð Bergs Þórs Ingólfssonar og leikstjóri er Einar Aðalsteinsson.

Markaðssetja dauðann og nota reikniformúlur til að finna ástina
Leikfélagið hefur unnið eftir leikgerð Bergs Þórs Ingólfssonar en aðlagað verkið eftir því sem þeim finnst passa umhverfinu og nútímanum betur og m.a. bætt við tónlist í verkið. Sagan gerist í hátæknilegu samfélagi þar sem alþjóðlega stórfyrirtækið LoveStar blómstrar, með höfuðstöðvar sínar í Öxnadal. Fyrirtækið, hefur áður markaðssett dauðann, handfrelsað fólk með alls kyns bylgjum og hannað reikniformúlur til að koma skipulagi á ástina.

Indriði og Sigríður eru aðalpersónur verksins en þau eru ungt og handfrjálst par, sem telur sig hafa fundið ástina eftir hefðbundnum leiðum. Þeim berst bréf frá LoveStar með þeim upplýsingum að þau séu ekki sálufélagar og að hinn raunverulegi hinn helmingur Sigríðar bíði hennar í Öxnadalnum. En getur ástin blómstrað hjá fólki sem fylgir ekki vísindalegum útreikningum? Er hægt að bjarga ástinni?

Andri Snær spáði framtíðinni í LoveStar

Einar Aðalsteinsson, leikstjóri verksins, segir ákvörðunina að setja upp LoveStar hafa m.a. verið vegna þess hversu vel söguþráður bókarinnar á við í dag. Bókin LoveStar, eftir Andra Snæ Magnason, kom út árið 2002 og Einar segir að bókin hafi hreinlega spáð fyrir um ýmislegt. Bókin gerist í framtíðinni og nú árið 2018, þegar í framtíðina er komið, er margt sem Andri Snær virðist hreinlega hafa séð fyrir. T.a.m. eru áhrifavaldar teknir fyrir í bókinni, sem kallast Laumuhýslar, og Einar tekur dæmi um að hæglega sé hægt að líkja þessu við áhrifavalda á Snapchat.

„Í verkinu er kastað fram mörgum spurningum, bæði siðferðislegum og trúarlegum, sem eiga við í dag. Það er margt í bókinni sem Andri Snær náði algjörlega að negla, eins og t.d. áhrifavaldar. Hann skrifaði það inn í bókina og hefur bara hreinlega náð að spá fyrir um margt. Vangaveltur eins og: Hversu langt getur maður gengið í að nýta sér tæknina? Hvar endar manneskjan og tæknin byrjar? Þetta eru allt saman mjög skemmtilegar pælingar sem eru þarna,“ segir Einar.

Svakalegt stökk úr Rýminu í Hof
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri setur upp leiksýningu á hverju ári þar sem hin ýmsu verk hafa verið tekin fyrir. Fyrir aðeins sex árum voru sýningar leikfélagsins settar á svið í Rýminu, gömlu Dynheimum og síðan tók Sjallinn við. Í fyrra setti félagið upp söngleikinn Anný, sem sýndur var í Samkomuhúsinu en nú stækkar félagið enn frekar við sig þar sem LoveStar verður sýnt í Menningarhúsinu Hofi í sal sem tekur 500 manns.

„Þetta er svakalegt stökk; að fara úr Rýminu, Sjallanum og síðan Samkomuhúsinu í mjög stóran 500 manna sal með 17 metra langt svið. Við erum mikið að vinna með það núna, hæðina, dýptina og víddina á sviðinu,“ segir Einar.

„Þetta er bara næstum því eins og að vera í atvinnuleikhúsi“
Einar segir undirbúninginn ganga mjög vel en nemendur hafa unnið að verkinu meira og minna síðan í október í fyrra. Æfingar hófust á fullu um miðjan janúar en þar á undan var verkið æft og aðlagað, leikmyndin smíðuð, búningar hannaðir sem og framsetningin, verkið markaðssett og svo mætti lengi telja.
„Þetta er búið að ganga hrikalega vel. Þetta er brjáluð keyrsla auðvitað en það er mikill dugnaður í nemendum og mjög fagmannlegt umhverfi. Krakkarnir eru búnir að byggja upp svo flotta reynslu í að setja upp sýningar að þetta er bara næstum því eins og að vera í atvinnuleikhúsi,“ segir leikstjórinn um þessa stóru sýningu sem rúmlega 70 nemendur hafa unnið hörðum höndum að síðastliðna mánuði.

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi 8. mars 2018.

UMMÆLI

Sambíó