Stærsta þyrlufyrirtæki Austurríkis haslar sér völl á Íslandi

Stærsta þyrlufyrirtæki Austurríkis haslar sér völl á Íslandi

Heli-Austria, stærsta þyrlufyrirtæki Austurríkis, mun starfrækja allt að fimm þyrlur á Íslandi 2019. Í síðustu viku undirrituðu Heli-Austria og Circle Air á Akureyri samning um starfrækslu þyrlna sem verða m.a. gerðar út frá Akureyri næsta sumar. Það mun verða í fyrsta sinn sem þyrlur eru staðsettar á Akureyri yfir lengri tíma, en fram að þessu hafa þyrlur verið starfræktar í tengslum við þyrluskíðamennsku á Tröllaskaga.

Heli-Austria undirritaði fyrr í haust samning við Arctic Heli Skiing, sem gerir út frá Klængshóli í Skíðadal, en það fyrirtæki er leiðandi í þyrluskíðamennsku á Íslandi. Haft er eftir Roy Knaus, forstjóra Heli-Austria að þeir sjái mikla möguleika fyrir meiri notkun þyrlna á Íslandi á breiðara sviði. “Okkur hefur sýnst að megnið af þyrlunotkun á Íslandi sé bundið við ferðaþjónustu, þá sérstaklega út frá Reykjavík, en við teljum mikla möguleika felast í annars konar notkun víðar um landið einnig.

Að auki teljum við að hægt sé að ná mikilli hagræðingu í sjúkraflutningum, sérstaklega á Suður– og Suðausturlandi, með notkun smærri og hraðfleygari þyrlna. Við erum spennt fyrir samstarfi við íslenska samstarfsaðila okkar og vonum að þetta verði kærkomin viðbót og geti jafnframt fjölgað nýtingarmöguleikum á þyrlum umfram það sem nú er”.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Circle Air, tekur í sama streng. “Við höfum verið að bjóða upp á leiguflug og hefðbundin útsýnisflug með flugvélum fyrir ferðamenn fram að þessu, en erum vitanlega spennt fyrir viðtökum á næsta ári, þegar við höfum þyrlu staðsetta á Akureyri að staðaldri. Heli-Austria er öflugur samstarfsaðili með yfir 35 ára reynslu og stóran flota af þyrlum. Við hlökkum mjög til samstarfsins“.

UMMÆLI