Stærsti útskriftarárgangur Háskólans á Akureyri frá upphafiMynd: Daníel Starrason

Stærsti útskriftarárgangur Háskólans á Akureyri frá upphafi

Háskólahátíð – brautskráning Háskólans á Akureyri  fór í ár fram í þremur athöfnum á tveimur dögum. Þá brautskráðust 534 kandídatar af þremur fræðasviðum og er þetta stærsti útskriftarárgangur háskólans frá upphafi.

Föstudaginn 11. júní voru brautskráðir kandídatar af framhaldsnámsstigi í Hátíðarsal Háskólans og laugardaginn 12. júní voru kandídatar í grunnnámi brautskráðir í tveimur athöfnum. Í þeirri fyrri voru brautskráðir kandídatar af Heilbrigðisvísindasviði og Viðskipta- og raunvísindasviði og seinnipartinn voru brautskráðir kandídatar af Hug- og félagsvísindasviði.

Vegna aðstæðna var ekki hægt að taka á móti gestum og var athöfnum því streymt á Facebook og YouTube rás háskólans. Kandídatar voru sammála um það var mikið gleðiefni að geta komið á staðinn og haldið Háskólahátíð með nokkuð hefðbundnum hætti.

Kóvið

Í ræðu sinni komst rektor ekki hjá því að fjalla um veturinn sem skráður verður í mannkynssöguna sem einn af verri vetrum sögunnar – þó ekki vegna vetrarharðinda. Það má draga mikinn lærdóm af mismunandi viðbrögðum samfélaga við heimsfaraldrinum. Hvað varðar viðbrögð Háskólans á Akureyri við heimsfaraldrinum sagði rektor: „Það var samheldinn hópur starfsfólks og stúdenta sem gerði allt sitt svo unnt væri að koma á nauðsynlegum breytingum á sem stystum tíma þegar Kóvið skall á okkur í febrúar á síðasta ári. Það tókst með eins litlum áhrifum á námsframvindu stúdenta, rannsóknir og aðra starfsemi háskólans og mögulegt var. Öllum sem komu að því að leysa úr þessu stóra verkefni þakka ég hjartanlega fyrir faglegt og óeigingjarnt vinnuframlag sem tókst með eindæmum vel,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson í ávarpi sínu.

Rektor fjallaði einnig um tækifæri: „Framundan eru gríðarmikil tækifæri fyrir framsæknar menntastofnanir á háskólastigi til að láta til sín taka. Háskólinn á Akureyri er tæknilega og faglega mjög vel í stakk búinn til þess að grípa þetta tækifæri og gera það að sínu, enn frekar en nú er. Nýtum möguleikana, eflum háskólann, styrkjum með því nærsamfélögin sem skólinn er hluti af, og verum í fremstu röð meðal menntastofnana landsins hvað þetta varðar. Uppbygging námsumhverfa líkt og nú er stefnt að í samvinnu við Austfirðinga með opnun útibús á Austurlandi er hluti af því umhverfi að gefa landsmönnum öllum betra aðgengi að háskólanámi og styðja við uppbyggingu námssamfélaga á hverjum stað,“ sagði Eyjólfur.

Kandídatar eru stolt Háskólans á Akureyri

Eyjólfur hvatti kandídata til þess að hugsa vel um sig sjálf til þess að geta verið til staðar fyrir sína nánustu á sama tíma og eigið sjálf og starfsferill er byggður upp. „Náið takti í línudansi lífsins og góðu flæði í hreyfingarnar og þá verða ykkur allir vegir færir,“ sagði rektor í lok ávarps þegar hann svo hvatti kandídata til þess að fara og gera heiminn betri.

Að stefna að vinnu sem gefur gleði og lífsfyllingu

Heiðursgestur Háskólahátíðar var Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, og flutti hún einlægt erindi til kandídata. Í erindi sínu hvatti Kolbrún kandídata til að setja markið hátt og stefna að því að vera glöð í vinnunni. „Ég lít á það sem mikil forréttindi að gera einmitt þetta. Vinna við það sem hefur verið minn draumur frá því að ég hóf laganám. Um leið og Kolbrún óskaði kandídötum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn kom hún að mikilvægi þess að geta skilið á milli vinnu og einkalífs. „Því það er nú einu sinni þannig að störf koma og fara en fjölskyldan, vinir og heilsan okkar er eitthvað sem við viljum halda í.

Ávörp og viðurkenningar

Í ár fluttu fjórir kandídatar ávarp:

  • Sigríður Arna Lund, kandídat í diplómanámi til starfsréttinda í iðjuþjálfun, flutti ávarp á brautskráningarhátíð framhaldsnema.
  • Hanna Birna Valdimarsdóttir, kandídat í iðjuþjálfunarfræði, flutti ávarp fyrir hönd kandídata á Heilbrigðisvísindasviði.
  • Maríanna Margeirsdóttir, kandídat í viðskiptafræði, flutti ávarp fyrir hönd kandídata á Viðskipta- og raunvísindasviði.
  • Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, kandídat í lögfræði, flutti ávarp fyrir hönd kandídata á Hug- og félagsvísindasviði.

Brautskráðir voru samtals 534 kandídatar, 367 í grunnnámi og 167 í framhaldsnámi.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í grunnnámi hlutu eftirtaldir:

  • Hjúkrunarfræðideild – Elín Jakobína Valgerðardóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir hæstu meðaleinkunn í hjúkrunarfræðum. Sóley Diljá Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fyrir hæstu einkunn í Samfélagshjúkrun.
  • Iðjuþjálfunarfræðideild – Sigfríður Arna Pálmarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, endurhæfingardeild Kristnesi, fyrir hæstu meðaleinkunn í iðjuþjálfun
  • Félagsvísindadeild – Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, BA í lögreglu- og löggæslufræði og Hallgrímur Helgi Hallgrímsson, lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn – Diplóma
  • Kennaradeild – Berglind Karlsdóttir, B.Ed. í kennarafræði
  • Lagadeild – Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, BA í lögfræði
  • Sálfræðideild – Þóra Katrín Erlendsdóttir, BA í sálfræði
  • Auðlindadeild – Theodór Óskar Þorvaldsson, BS í sjávarútvegsfræði
  • Viðskiptadeild – Guðrún Lárusdóttir, BS í viðskiptafræði og Guðrún Helga Finnsdóttir, BS í tölvunarfræði

KEA verðlaunaði kandídata í grunnnámi fyrir hæstu meðaleinkunn fræðasviðs. Í ár hlutu eftirtaldir viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn:

  • Heilbrigðisvísindasvið: Elín Jakobína Valgerðardóttir, BS í hjúkrunarfræði
  • Hug- og félagsvísindasvið: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, BA í lögreglu- og löggæslufræði
  • Viðskipta- og raunvísindasvið: Theodór Óskar Þorvaldsson, BS í sjávarútvegsfræði

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í framhaldsnámi hlutu eftirtaldir:

  • Eyrún Björg Þorfinnsdóttir frá Heilbrigðisvísindasviði fyrir hæstu einkunn í heilbrigðisvísindum og hæstu einkunn í framhaldsnámi við háskólann þetta skólaár
  • Andrea Björt Ólafsdóttir fékk viðurkenningu frá Iðjuþjálfafélagi Íslands fyrir hæstu einkunn í iðjuþjálfun, viðbótardiplóma til starfsréttinda

Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hafa undanfarin ár veitt viðurkenningu fyrir framúrskarandi ritgerðir sem fjalla um aukin réttindi kvenna og eða jafnrétti.

  • Birgitta Birgisdóttir og Kamilla Einarsdóttir fengu viðurkenningu frá Zontaklúbbi Akureyrar fyrir ritgerð sína í félagsvísindum. Titill ritgerðarinnar er „Mjög dýrmætt er að sjá hvað þær ná oft miklum tökum á eigin lífi, vaxa og dafna og öðlast trú á eigin getu.“
  • Aija Burdikova fékk viðurkenningu frá Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu fyrir meistararitgerð sína í félagsvísindum. Titill ritgerðarinnar er „Eastern European women in Akureyri.“

Í 17 skipti veittu Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra stúdenta við HA og annarra velunnara háskólans viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námstíma stóð.

Fimm hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni:

  • Framhaldsnám: Heiða Björg Guðjónsdóttir, MT í kennarafræðum
  • Heilbrigðisvísindasvið: Þórey Erla Erlingsdóttir, BS í hjúkrunarfræði
  • Hug- og félagsvísindasvið: Daníel Gunnarsson, BA í félagsvísindum og Steinunn Alda Gunnarsdóttir, BA í sálfræði
  • Viðskipta- og raunvísindasvið: Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir, BS í viðskiptafræði

Í gegnum athafnirnar leiddi Vigdís Diljá Óskarsdóttir og að athöfnum loknum var boðið til móttöku á fræðasviðum.

UMMÆLI

Sambíó