,,Starfsemi FÉLAK er einstök á landsvísu“

Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar Akureyrarbæjar ásamt Vöndu Sigurgeirsdóttir,  lektor í tómstunda- og félagsmálafræði og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

,,Að mínu mati er verið að vinna gríðarlega mikilvægt starf hjá félagsmiðstöðvum í Rósenborg á Akureyri. Um er að ræða starfsemi sem er einstök á landsvísu. Samstarf þeirra stofnana sem koma að börnum og unglingum á Akureyri er til fyrirmyndar.“

Þetta segir Vanda Sigurgeirsdóttir,  lektor í tómstunda- og félagsmálafræði og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands en þetta kom fram í máli hennar á málþingi um frítíma, ungt fólk og forvarnir sem fram fór í Rósenborg síðastliðinn föstudag.

Forvarnir og frístundir tengjast órjúfanlegum böndum en skynsamleg, uppbyggileg nýting á tíma og meðvitund um líðan í frítíma hefur reynst árangursríkt í forvarnastarfi með ungu fólki. Að málþinginu stóðu forvarnar- og frístundadeild Akureyrarbæjar og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, tómstundadeild. Mikil starfsþróun hefur átt sér stað í félagsstarfi á vegum frístundadeildar Akureyrar og hefur verið unnið með starfsaðferð sem kallast Time Wise. Sú starfsaðferð gengur markvisst út á sjálfsstyrkingu,að vinna með leiða og áhugaleysi, skoða tímanotkun og uppbyggilega nýtingu á tíma. Time Wise starfsaðferðin er þróuð af Lindu Caldwell prófessor við Penn State í Bandaríkjunum og var upphaflega unnin til að vinna með áhættuhegðun og neyslu ungs fólks. Time Wise starfsaðferðin hefur verið rannsökuð og rýnd af Ed Smith hjá félagsvísindarannsóknadeild Penn State sem kom á málþingið ásamt Lindu til að skoða og ræða hvernig aðferðin hefur verið aðlöguð að frítímastarfi á Akureyri.

,,Miklir möguleikar í að vinna markvisst með og í gegnum tómstundir og áhugamál“

Á málþinginu fjölluðu fræðimenn og fagfólk um stöðu ungs fólks, tómstundir þeirra og um rannsóknir sem styðja við forvarna- og frítímastarf í sveitarfélaginu. Fulltrúar starfsfólks félagsmiðstöðvanna, Vilborg Hjörný Ívarsdóttir og Guðmundur Óli Gunnarsson miðluðu af reynslu sinni af notkun Time Wise aðferðafræðinnar í starfi. Jakob F. Þorsteinsson aðjunkt á menntavísindasvið HÍ ræddi um hlutverk menntunar, og hvort ekki megi standa við þá fullyrðingu að menntakerfi séu fleiri en eitt og þá hvort hið óformlega menntakerfi sé nægjanlega viðurkennt. Margt hefur verið að breytast þegar kemur að skilningi á námi og hvernig það fer fram. Meðal annars komu fram vangaveltur um hlutverk hefðbundins skóla og hvort raunhæft sé að skólinn standi undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar og hvort skipulagt frítímastarf geti unnið betur með skólakerfinu.

,,Samstarf stofnana, fagfólks, barna og foreldra er einn mikilvægasti þátturinn við framþróun menntunar. Það búa miklir möguleikar í að vinna markvisst með og í gegnum tómstundir og áhugamál. Það bæði mætir þörfum barna og ungs fólks í þeirra lífi í dag sem og styður þau til framtíðar.

Á Akureyri er verið að vinna starf sem er til fyrirmyndar en jafnframt er hægt að efla það enn frekar með marvissum hætti s.s. með þróunarverkefnum, rannsóknum og með aukinni þjálfun og menntun starfsfólks.“ segir Jakob

Vanda Sigurgeirsdóttir, aðjúnkt á menntavísindssviði ræddi um tómstundamennt og mikilvægi þess að unnið sé markvisst ef ætlunin er að ná árangri með einstaklinga í frítímanum. Ekki sé nóg að taka úr lás og opna húsið, það þarf að vinna markvisst, meðvitað og skipulega svo starfsemin hafi forvarnagildi. Afar mikilvægt er að rannsóknir séu gerðar reglubundið til að tryggja árangur og gæði starfsins.

,,Ánægjulegt að sjá hve vel Akureyringum hefur tekist að skapa heilstæða forvarnar og frítímaþjónustu í kringum börn og ungmenni“

Árni Guðmundsson, sérfræðingur í æskulýðsmálum, ræddi um að líklega hefur það aldrei verið jafn flókið að alast upp og það er nú í dag. Því þurfi ungt fólk mikinn stuðning og leiðsögn.

,,Það er ánægjulegt að sjá hve vel Akureyringum hefur tekist að skapa heilstæða forvarnar og frítímaþjónustu í kringum börn og ungmenni og ekki bara ungmenni sbr starfseminn í Punktinum. Frábær aðstaða til æskulýðsstarfs í Rósenborg og miðlæg þjónusta sem þar er veitt af reyndu og vel menntuðu starfsfólki tryggir samfellu og gæði í starfsemi FÉLAK í öllum hverfum bæjarins – Að mínu mati þá hefur uppbygging tekist vel og um að gera að halda áfram á sömu braut,“ segir Árni.

Andrea Hjálmsdóttir frá Háskólanum á Akureyri velti í máli sínu upp stöðu jafnréttismála en margt bendir til að þó svo margt hafi áunnist sé stöðnun hvað varðar viðhorf ungs fólks til kynjajafnréttis og þörf sé á breyttri aðferð í jafnréttisbaráttunni. Hermína Gunnþórsdóttir sagði frá rannsóknum á stöðu ungs fólks af erlendum uppruna og þar er svo sannarlega verk að vinna og margt sem við getum bætt okkur með t.d. að bæta tungumálakennslu. Kjartan Ólafsson lektor frá Háskólanum á Akureyri fjallaði um netnotkun ungs fólks og lék sér m.a að því að bera saman bóklestur hér áður fyrr.

Niðurstaða málþingsins er að mörg áhugaverð tækifæri felast í meira samstarfi hins formlega námsvettvangs og hins óformlega, samfélaginu og einstaklingum til hagsbóta. Með skipulögðu og innihaldsríku starfi er forvarnagildið gríðarmikið.

UMMÆLI