Prenthaus

Starfsemi Rauða krossins við Eyjafjörð á tímum Covid-19

Starfsemi Rauða krossins við Eyjafjörð á tímum Covid-19

Í kjölfar komu COVID-19 faraldursins hefur starfsemin gjörbreyst hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð líkt og hjá svo mörgum öðrum. Venjubundnum verkefnum hefur verið frestað eða breytt til að mæta ástandinu á meðan vinaverkefni og neyðarvarnir hafa verið einn stærsti þátturinn í starfi Rauða krossins síðastliðnar vikur. 

Tekin var ákvörðun um að loka fataverslunum og hætta að taka við fötum í fatagáma hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð um miðjan marsmánuð. Var það meðal annars gert með það að leiðarljósi að vernda sjálfboðaliða Rauða krossins sem margir falla í áhættuhóp gangvart veirunni.

Heimsóknarvinir taka nú upp símann og hringja í sína gestgjafa í stað þess að fara heim til þeirra. Verkefnið símavinir hefur verið eflt á landsvísu en þar hringja sjálfboðaliðar í einstaklinga sem upplifa einangrun eða einsemd og spjalla reglulega við þá. 

„Það er gífurlega mikilvægt er að halda áfram þjónustu við viðkvæma hópa í samfélaginu og nýta úrræðin sem til staðar eru til að veita mikilvægar upplýsingar til skjólstæðinga,“ segir Ingibjörg Elín Halldórsdóttir, deildarstjóri Eyjafjarðardeildar Rauða krossins í samtali við Kaffið.

Úrræði fyrir jaðarsetta hópa eru enn starfrækt á Akureyri en með breyttu verklagi með tilliti til sóttvarna þar sem lögð er áhersla á að tryggja öryggi skjólstæðinga og sjálfboðaliða félagsins. Þar má nefna aðstoð við flóttafólk og innflytjendur sem heitir Opið hús, þar sem veitt er ráðgjöf varðandi praktískt úrlausnarmál. Einnig er skaðaminnnkunarúrræðið Ungfrú Ragnheiður með vaktir tvisvar í viku.

Rauði krossinn hefur hlutverki að gegna í almannavörnum og er viðbragðsaðili í neyðarástandi. Hjálparsíminn 1717 er opinn allan sólarhringinn og sinnir því hlutverki að vera til staðar fyrir fólk sem tekst á við erfiðileika og þarf að ræða við einhvern í trúnaði. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparsímans veitir virka hlustun og ráðgjöf varðandi viðeigandi úrræði en sjálfboðaliðar sinna símsvörun bæði á Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu vikum hefur hlutverk Hjálparsímans verið útvíkkað, nú tekur 1717 einnig við yfirfalli frá símanúmerinu 1700 og veitir almennar upplýsingar um þætti sem varða COVID-19. Starfsemin hefur verið efld til muna og sjálfboðaliðahópurinn stækkaður til að anna símsvörun. Nýverið ákvað félagsmálaráðuneytið að styðja við þjónustuna í ljósi aukins álags á Hjálparsímann. Með samstarfi ráðuneytisins og Rauða krossins er verið að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa vegna streitu, vanlíðan, ofbeldis eða annarra orsaka.

„Ljóst er að hlutverk Hjálparsímans er mikilvægt nú sem ávallt á neyðartímum,“ segir Ingibjörg.

Á sama tíma og Hjálparsíminn 1717 hefur aukið umsvif sín þá hefur Rauði krossinn tekið við umsjón sóttvarnarhúsa vegna COVID-19. Ráðinn var umsjónarmaður við umsjón sóttvarnahúsa á Akureyri og hópur sjálfboðaliða fenginn til að styðja við verkefnið. Verkefni þeirra snúast um að veita sálrænan stuðning, aðallega í gegnum fjarbúnað, og huga að því að einstaklingar sem þurfa að sæta sóttkví í sóttvarnarhúsi fái örugglega öll nauðsynleg aðföng og aðstoð. Verkefnið á Norðurlandi er unnið í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands sem sinnir heilbrigðisaðstoð við gesti í sóttvarnarhúsum.

COVID-19 veiran virðir engin landamæri. Rauði krossinn við Eyjafjörð hefur brugðist við og lagt til tvær milljónir í neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans með áherslu á aðstoð við fátækustu löndin, bæði í Afríku og í Miðausturlöndum.

„Það hefur það sýnt sig að fólk stendur saman og styður við hvort annað þegar reynir á. Við erum jú öll almannavarnir og getum flest aðstoðað þá sem eru í áhættuhópum eða þá sem vegna aðstæðna eru að einangrast frá samfélaginu meira en áður. Við hvetjum ykkur til að huga að heilsu ykkar og öryggi en jafnframt að viðhalda og efla félagsleg tengsl á þessum erfiðu tímum. Endilega tökum upp símann eða aðstoðum þá sem í kringum okkur eru með aðföng – munum þó ávallt að gæta fyllsta öryggis varðandi hreinlæti og hæfilegri fjarlægð milli einstaklinga,“ segir Ingibjörg.

„Það er gífurlega mikilvægt á þessum tímum að huga sérstaklega að þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, þeim sem eru jaðarsettir eða í félagslegri neyð. Þarna skipta félagasamtök og opinberir aðilar máli. Styðja þarf við bakið á þeim sem eiga erfitt og veita þeim bjargráð á þessum erfiðu tímum. Rauði krossinn stendur vaktina nú sem ávallt.“

Til að styðja Rauða krossinn er hægt að gerast mannvinur: https://www.raudikrossinn.is/styrkja-starfid/gerast-mannvinur/

Nánar um úrræði Rauða krossins:

Símavinir Rauða krossins: https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/heimsoknarvinir/simavinir/

Hjálparsíminn 1717 – https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717/ 

Sambíó

UMMÆLI