Starfssemi FAB-LAB smiðjunnar hafin

Jón Þór Sigurðsson við stærstu vél smiðjunnar.
Mynd og frétt: vma.is

Þessa dagana er starfsemi nýju FAB-LAB smiðjunnar, sem er staðsett í VMA, að hefjast. Fyrsti námskeiðshópurinn á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar mætti í fyrstu kennslustundina sl. mánudag og í þessari og næstu viku verða kynningar fyrir kennara grunn- og framhaldsskóla á svæðinu til undirbúnings fyrir notkun grunn- og framhaldsskólanema á tækjum og tólum FAB-LAB smiðjunnar.

Að FAB-LAB smiðjunni hafa staðið frá upphafi VMA, SÍMEY, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbær. Auk þess leggur Eyjafjarðarsveit smiðjunni til rekstrarframlag. Stofnsamningur um smiðjuna var til þriggja ára – 2016-2018.

Hæsta framlag fyrirtækja til tækjakaupa kom frá Norðurorku. Einnig lögðu tækjakaupum lið KEA, SS Byggir, Höldur og Byggiðn – stéttarfélag.

FAB-LAB smiðjan á Akureyri er sú sjöunda á Íslandi. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, gat þess í ávarpi við kynningu á smiðjunni sl. föstudag að hann hefði miklar væntingar til hennar, enda staðsett í Eyjafirði þar sem mannlíf væri fjölbreytt, menntun öflug og fjölþætt og sterkt atvinnulíf.

 

Þá er vert að undirstrika að annan föstudag, 17. febrúar, verður opið hús fyrir almenning í FAB-LAB smiðjunni, þar sem allir áhugasamir geta komið. Þetta opna hús verður auglýst nánar síðar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó