NTC netdagar

Stefán Elí gefur út 13 laga plötu


Laugardaginn 7. apríl hélt tónlistarmaðurinn Stefán Elí útgáfutónleika og í framhaldi af því gaf hann út glænýja plötu. Platan ber nafnið ,,I´m Lost. Please Return If Found” og inniheldur 13 frumsamin lög.

Stefán setti af stað söfnun inni á Karolina Fund söfnunarsíðunni til að fjármagna útgáfuna. Fólk gat þar pantað sér ýmsa hluti svo sem geisladiska, boli, miða á útgáfutónleikana og vínylplötu. Söfnunin stóð yfir í u.þ.b. mánuð en þegar einungis klukkustund var eftir safnaðist upp að takmarki.

,,Mig langaði til þess að gera eitthvað meira í kringum útgáfuna á þessari plötu heldur en að kasta henni bara inn á netið og sjá hvað myndi ske. Þá setti ég af stað þessa söfnun inni á Karolina Fund til að fjármagna geisladiska, vínylplötur, boli og tónleika. Karolina Fund virkar þannig að maður setur eitthvert takmark sem maður stefnir á að ná að safna upp að. Ef manni tekst ekki að safna upp að takmarkinu verður ekkert úr þessu svo þetta er í raun svona allt eða ekkert síða. Þegar það var vika eftir var ég alls ekki viss um að þetta tækist hjá okkur en svo á síðustu dögunum fór allt á fullt og þetta tókst á síðustu klukkustundinni.”

Útgáfutónleikarnir voru haldnir í Hlöðunni, Litla Garði og gengu þeir eins og í sögu. Stefán spilaði öll lögin af disknum en sum lögin voru höfð í öðrum búningi en á plötunni.

“Ég hef mikið verið að leika mér með svona looper græju undanfarið og ég ákvað að útsetja nokkur af lögunum á plötunni á gítar og nota svo þennan geggjað skemmtilega looper. Lögin hljóma þá í raun mjög frábrugðin því sem fólk heyrir á plötunni en mér fannst bara svo æðislegt að hafa þessa fjölbreytni á tónleikunum. Frá því sem ég hef heyrt fílar fólk gítarútsetningarnar í botn. Ég dró fram looperinn og gítarinn í fyrsta skipti þegar ég var að spila á árshátíð Akureyrarbæjar. Ég spilaði einnig á Akureyri Backpackers og fékk eftir bæði þessi gigg helling af jákvæðum athugasemdum þar sem fólk sagði að þeim þætti gítar- og loop-lögin svo skemmtileg.”

Platan kom inn á Spotify á dögunum en fólk getur enn keypt diska, boli og vínyl af Stefáni.

,,Ég er bara fáránlega ánægður með þetta allt. Hellingur af fólki hjálpaði til við söfnunina og ég get ekki þakkað þeim nógu mikið. Útgáfutónleikarnir heppnuðust með prýði og ég er mjög þakklátur öllum þeim sem komu. Platan en núna komin inn á Spotify þar sem allir geta hlustað en ég á ennþá til nóg af diskum, bolum og plötum svo endilega heyrið í mér ef þið hafið áhuga.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó