Prenthaus

Stefanía á stórmót í latínskum dönsumStefanía eftir síðustu keppni í Uppsala í nóvember.

Stefanía á stórmót í latínskum dönsum

Akureyringurinn Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, 24 ára, hefur æft latínska dansa undanfarin tvö ár og stefnir nú á sitt stærsta mót hingað til. Hún hyggst ferðast til Bandaríkjanna og keppa á „The Summit,“ heimsmeistaramóti sem fer fram í Orlando í janúar. The Summit er eitt allra virtasta mót heims í latínskum dansi en í íþrótt sem skortir eitt opinbert heimsmeistaramót hefur það staðið uppi sem það mót sem flestir áhugamenn vilja helst gefa titilinn. Þangað fer hún með nokkrum skólafélögum sínum úr dansskóla sínum, Dansakademi í Malmö.

Í Orlando mun Stefanía keppa í hvorki meira né minna en sjö flokkum latínskra dansa, ýmist ein og sér eða með þjálfara sínum í Dansakademi, Mariano Neris. Þau munu stíga saman Salsa, Cha Cha og Bachata.

Stefanía flutti til Malmö til þess að stunda háskólanám árið 2021 og ákvað að skrá sig þar í dansskólann og læra latínska dansa. Hún hafði nokkrum árum áður lært grunnskrefin þegar hún var sem skiptinemi í Costa Rica og varð frá og með þeirri stund ástfangin af spænskri tónlist.

Stefanía varð fljótlega ástfangin af latínskum dansi líka, en aðspurð segir hún að það sé tónlistin sem laðar hana að latínskum dönsum fram yfir aðrar greinar. Hún fari að iða í líkamanum þegar hún heyri slíka tónlist, þá sérstaklega salsa tónlist og ekkert jafnist á við fýlinginn í henni. Stefanía vann á vertíð í fiskvinnslu á Eskifirði síðasta sumar og segir fréttaritara glöð í lund frá því hvernig hún notfærði salsa tónlist til þess að halda sér hressri og vakandi í gegnum langar vaktirnar.

The Summit verður ekki fyrsta dansmót Stefaníu, en hún keppti á stórmóti í Brisbane í Ástralíu á síðasta ári. Þar gekk tiltölulega brösulega, þá sérstaklega vegna þess að mistök leiddu til þess að vitlaust lag var spilað þegar hún steig á stokk. Hún og annar dansari að nafni Mario Acosta þurftu því að spinna nýjan dans á staðnum. Stefanía segir það þó hafa verið góða reynslu og hefur hún keppt á fleiri mótum síðan, síðast í nóvember á þessu ári þar sem hún og lið hennar náðu þriðja sæti á móti í Uppsölum í Svíþjóð.

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með Stefaníu geta gert það á samfélagsmiðlum hennar (@stefaniajohonnud á Instagram) og ef fólk vill styrkja hana upp í ferð hennar á keppnina er það hægt á GoFundMe síðu hennar með því að smella hér. Peningur sem safnast fer upp í ferða- og keppniskostnað.

UMMÆLI

Sambíó