,,Stefnir sem hæst og langt út fyrir landsteinana“

,,Stefnir sem hæst og langt út fyrir landsteinana“

Alda Karen Hjaltalín er 23 ára Akureyringur sem hefur margt á sinni könnu og setur markið hátt. Alda er umboðsmaður rapphljómsveitarinnar Reykjavíkurdætra og eigandi vefverslunarinnar BARKODE ásamt kærustu sinni, Antoníu Lárusdóttur. Meðfram þessu starfar hún einnig sem markaðsráðgjafi hjá hinum og þessum fyrirtækjum.

aldakaa

Alda Karen Hjaltalín

Alda útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2013. Eftir útskrift fékk hún tilboð um að gerast starfsnemi hjá Sagafilm og flutti því fljótlega eftir það suður yfir heiðar, til Reykjavíkur. Hún var fljót að vinna sig upp í starfi hjá Sagafilm. ,,Eftir aðeins nokkra mánuði í starfi fékk ég stöðuhækkun sem almannatengill og aðstoðarframleiðandi. Tæpu ári seinna fékk ég svo aðra stöðuhækkun og gerðist markaðsstjóri Sagafilm. Eftir tvö ótrúlega lærdómsrík ár hjá Sagafilm ákvað ég að snúa mér aftur að náminu og hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands,” segir hún.

Í október það sama haust lenti Alda svo í alvarlegu bílslysi sem varð þess valdandi að hún þurfti að hætta í náminu. ,, Það reyndist svo lán í óláni því aðeins nokkrum mánuðum seinna stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki ásamt kærustunni minni, Antoníu Lárusdóttur,“ segir hún.

Hugmyndina segir Alda hafa kviknað eftir að hún og Antonía voru nýfarnar að búa saman. ,,Við fórum að pæla í hinu og þessu varðandi lífið. Við vorum hvorugar sáttar með þann stað sem við vorum á í lífinu þann daginn og ákváðum bara að breyta því. Mitt markmið var að eiga að minnsta kosti 3 fyrirtæki fyrir 25 ára aldur svo upp kom hugmyndin að byrja bara strax,” segir hún. Viku síðar voru þær komnar með kennitölu og skráð fyrirtæki, vefverslunina BARKODE sem selur tískufatnað. Vefurinn fór í loftið þann 2.júní síðastliðinn.

Alda gerðist umboðsmaður rapphljómsveitarinnar Reykjavíkurdætra 2015. Hún kynntist meðlimum hljómsveitarinnar í gegnum Antoníu sem vinnur mikið með þeim. Þegar Antonía var beðin um að leikstýra myndbandi við ,,Hæpið” dró hún Öldu með á fund með bandinu. ..Á miðjum fundi var ég beðin um að framleiða myndbandið fyrir þær. Það leið ekki á löngu að dæturnar boðuðu mig á fund til að bjóða mér starf,” segir Alda sem hafði þá tekið þá ákvörðun að hætta hjá Sagafilm. Því tók hún tilboðinu og sér ekki eftir því. ,,Þetta er búið að vera mikið ævintýri og hefur gert mér kleift að ferðast um heiminn og fara á tónlistarhátíðir. Dæturnar eru fagmenn fram í fingurgóma svo samstarfið hefur verið eins og dans á rósum,” segir Alda .

Alda ásamt Antoníu kærustu sinni

Alda ásamt Antoníu kærustu sinni

Reykjavíkurdætur hafa verið áberandi síðustu misseri og Alda segir eftirsóknina eftir þeim bara aukast ef eitthvað er og að allt líti úr fyrir að 2017 verði þeirra stærsta ár. Hún segist vera á Skype fundum oft viku og margir vilji fá bandið til að spila erlendis. Alda segir að þetta krefjist mikillar skipulagningar enda eru meðlimir bandsins 16 alls.
,,Þær eru allt frá því að vera fastaleikarar í Borgarleikhúsinu, listaháskólanemendur, söngkonur í öðrum hljómsveitum og jafnvel stjórna sínum eigin sjónvarpsþáttum svo ég er orðin ansi fær í að púsla saman dagskrám og bóka flugferðir,” segir hún en það er ekki það eina sem þarfnast skipulags en flestir dagar í lífi Öldu eru þéttskipaðir.

Enginn dagur er venjulegur dagur hjá Öldu. ,,Ég og Antonía reynum að viðhalda okkar hefðbundnu rútínu, vöknum snemma og förum í ræktina og svo sund og gufu ef við höfum tíma.” Hún vinnur síðan við BARKODE til a.m.k. fjögur á daginn og síðan vinnur hún fyrir Reykjavíkurdætur frá 16-20. Á þeim tíma er hún mikið á fundum og vinnur líka við markaðsráðgjöfina en þessa dagana er hún með tvö fyrirtæki og aðstoðar við eina bíómynd. Eftir að hafa borðað kvöldmat vinnur Alda svo yfirleitt frá 21 til miðnættis. ,,Ég er endalaust að vinna en mér finnst það bara svo gaman að ég tek varla eftir því,” segir hún og bætir við: ,,Ég tek samt aldrei að mér of mikið svo ég vinni ekki yfir mig en það er kosturinn við að vinna fyrir sjálfan sig, maður ræður tímanum sínum 100%.“ Þegar þessi metnaðarfulla, unga kona er að lokum spurð hvert hún stefni er svarið einfalt: ,,Sem hæst og langt út fyrir landsteinana sem fyrst.“

Sambíó

UMMÆLI