Stefnumót með Hörpu hefur göngu sína á KaffiðTV á föstudaginnLjósmynd: Heiða Sveinsdóttir

Stefnumót með Hörpu hefur göngu sína á KaffiðTV á föstudaginn

Harpa Lind Hjálmarsdóttir hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum undanfarið og þá sérstaklega á TikTok þar sem hún hefur safnað fleiri en fimm þúsund fylgjendum. Harpa er sjálfstætt starfandi sem einkaþjálfari og efnissmiður (e. Content creator), bæði fyrir sína eigin samfélagsmiðla og fyrir hin ýmsu fyrirtæki, auk þess að vera móðir og eiginkona.

Harpa mun á næstu dögum byrja með þáttinn “Stefnumót með Hörpu” hér á Kaffinu og þótti því viðeigandi að fá hana í smá viðtal til að leyfa lesendum að kynnast henni betur. 

„Þetta er búið að vera ótrúlega gaman og mjög spennandi að prófa eitthvað nýtt. Við erum þegar búin að taka upp fullt af efni og ég er búinn að fá að kynnast mjög skemmtilegum viðmælendum. Það verður svo rosa gaman að leyfa fólki að sjá afraksturinn á föstudaginn,“ segir Harpa.

Harpa er ættuð alls staðar af en hefur búið á Akureyri frá því á fjórða ári og telur sig því Akureyring í húð og hár. Hún segir þó Seyðisfjörð, þangað sem hún rekur ættir móður sinnar megin, eiga stóran stað í hjarta hennar. Hún bjó þar fyrsta ár ævi sinnar og heimsækir ennþá árlega. 

Harpa ólst upp í Þorpinu og gekk í Síðuskóla. Þrátt fyrir þetta lýsir Harpa sér sem KA manneskju í dag enda æfði maðurinn hennar, Sigþór Gunnar Jónsson, lengi vel með KA. Hún segir þó létt í lund að stuðningur hennar við KA sé að einhverju leyti til þess fallin að henni sé ekki hent út af tengdafjölskyldu sinni. Sem barn fann Harpa sig aldrei í boltaíþróttum heldur æfði hún listskauta, svo hún hafði ekki sterkar skoðanir á Þór/KA rígnum á sínum yngri árum, sem hún hefur í raun ekki í dag heldur. 

Harpa og Sigþór búa enn á Akureyri, en litlu munaði að fjölskyldan hafi flutt suður til Reykjavíkur. Í hvert skipti snérust þær vangaveltur um tækifæri til vinnu eða menntunar, en ástæðan fyrir því að þau hafi aldrei flutt er vegna þess að þeim langi ekki til þess að búa annars staðar en á Akureyri. Fjölskylda og vinir þeirra eru hér en mestu skiptir að hér hafa þau gert sér heimili. Þrátt fyrir að missa stundum af ráðstefnum og öðru og að þurfa stundum að fljúga suður til að vinna með sínum samstarfsaðilum þar, þá hefur hún aldrei séð eftir því að búa ekki annars staðar. Eins og Harpa bendir á er tæknin komin á þann stað að það eru ekki mörg tækifæri sem hún missir af vegna þess að búa ekki í Reykjavík. Þar að auki hafa hjónin mjög góða reynslu af því að ala upp börn hér á Akureyri. 

Árið sem var að líða var tilkomumikið fyrir Hörpu, en hún gekk í hið heilaga í júlí og bætti við sig fjölmörgum fylgjendum á samfélagsmiðlum. Þrátt fyrir það er hún bjartsýn á að 2024 muni toppa síðasta ár, þá helst með því að stækka og vaxa. Þá meinar hún ekki einfaldlega að bæta við sig fylgjendum, þó það sé að sjálfsögðu markmið líka, heldur með því að taka að sér stærri og fjölbreyttari verkefni, bæði í vinnu og sínu persónulega lífi. Eitt af þeim stóru verkefnum sem hún tekur að sér er að byrja með þátt hér á Kaffinu, en þar að auki ýjar hún að verkefni sem hún getur ekki talað um en hefur verið hugmynd lengi. Í bjartsýni sinni vonast hún til þess að koma því í gang í maí, en segir að það gæti tafist fram á haust. Frekari upplýsingar vill hún ekki gefa, en fylgjendur hennar skulu fylgjast vel með henni á næstu mánuðum. 

Hjónaband Hörpu og Sigþórs spilar stóran þátt í því efni sem Harpa gefur út á samfélagsmiðlum, en þar sýnir hún meðal annars frá vikulegum stefnumótum þeirra á miðvikudögum, en myndbönd sem sýna frá þeim hafa notið mikilla vinsælda. Harpa og Sigþór byrjuðu saman á fyrsta ári sínu í Verkmenntaskólanum og hafa því verið saman í næstum áratug, en þau munu halda upp á níu ára sambandsafmæli snemma á árinu, auk þess að fagna eins árs brúðkaupsafmæli í sumar. Aðspurð hvað það sé sem gerði þeim kleift að gera menntaskólasambandi að blómlegu hjónabandi segir Harpa að það hafi krafist smá heppni og mikillar vinnu: 

„Ég hef náttúrulega ekki verið í sambandi sem gekk ekki upp þannig ég svo sem þekki það ekki en þetta hefur allt gengið upp hjá okkur. Ég ætla ekkert að segja að þetta hafi verið auðvelt, auðvitað er þetta vinna, maður þarf að vinna að því að viðhalda þessu.

En hún bendir líka á að þrátt fyrir að hafa þurft að eiga samræður um hluti og ekki alltaf verið sammála um allt eigi þau sameiginlegan grunn sem hafi gert þeim kleift að vinna saman í gegnum það sem varð á vegi þeirra í lífinu. Hvorugt þeirra hafi þurft að breyta grunn lífsgildum sínum fyrir hvort annað:

„Áhugamál og lífsgildi okkar hafa alltaf verið þau sömu. Við viljum það sama og við höfum gaman af hvort öðru, þú veist það er aldrei leiðinlegt. Þetta er bara svona púsluspil sem virkar og enginn kubbur sem vantar í púslið.

Að lokum ber að nefna að það hefur orðið að ákveðni hefð hér á Kaffinu að spyrja viðmælendur að því hvernig þau taki kaffið sitt. Harpa fékk þá spurningu og gerði hún skýran greinamun á kaffinu heima annars vegar og á kaffihúsum hins vegar. Á kaffihúsum fær hún sér ávallt Cappucino, en heima er það bara einfaldur kaffibolli með haframjólk: „Ég er ekki vegan eða neitt slíkt en ég elska gráu Oatly haframjólkina … Ekki spons,“ segir Harpa og hlær.

Markaðsstjóra Oatly og lesendum Kaffisins er bent á að Hörpu er að finna á bæði TikTok og Instagram undir sama notendanafni: @harpalindh

Fyrstu tveir þættirnir af Stefnumóti með Hörpu koma út á föstudaginn, 1.mars næstkomandi, á Youtube-rás Kaffið.is. Gerðust áskrifandi að rásinni frítt hér og ekki missa af neinu! Auk þess munu Krasstófer og Ormur frumsýna nýjan þátt á föstudaginn. Þá kemur út fyrsti þáttur af Í vinnunni með Jóhanni Auðunssyni þar sem hann heimsækir Litlu Saumastofuna.

UMMÆLI

Sambíó