Steingrímssynir björguðu stigi fyrir KA í Grafarvogi

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði fyrra mark KA

KA-menn heimsóttu Fjölni í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld en um var að ræða viðureign á milli liðanna í áttunda og níunda sæti deildarinnar.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og eftir rúmlega 25 mínútna leik gerði Hrannar Björn Steingrímsson sig sekan um slæm mistök í vörn KA sem endaði með fyrsta marki leiksins því Ingimundur Níels Óskarsson færði sér mistök Hrannars í nyt og kom Fjölni í 1-0. Skömmu síðar gerðu KA-menn sig aftur seka um slæm mistök þegar bæði Srdjan Rajkovic og Callum Williams fóru illa að ráði sínu sem endaði með öðru marki Fjölnis og staðan orðin erfið fyrir gestina.

KA-menn gáfust hinsvegar ekki upp og skömmu fyrir leikhlé náði Hallgrímur Mar Steingrímsson að minnka muninn þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu. Hrannar Björn bætti svo upp fyrir mistök sín þegar hann skoraði glæsilegt mark á 55.mínútu og jafnaði metin fyrir KA.

Fleiri urðu mörkin ekki og 2-2 jafntefli niðurstaðan sem þýðir að KA er enn í 8.sæti, nú með 17 stig, fjórum stigum frá fallsvæðinu.

Fjölnir 2 – 2 KA

1-0 Ingimundur Níels Óskarsson (’26)
2-0 Þórir Guðjónsson (’38)
2-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’44)
2-2 Hrannar Björn Steingrímsson (’55)

Sambíó

UMMÆLI