Steinnes í umsjá Þórsara

Steinnes í umsjá Þórsara

Þór hefur fengið íbúðarhúsið Steinnes til umráða. Húsið er nú formlega hluti af íþróttasvæði Þórs og verður nýtt fyrir íþrótta- og félagsstarfsemi. Þetta kemur fram á vef Þórs.

Helga Lyngdal, varaformaður Þórs, og Ásthildr Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri undirrituðu samning vegna málsins í vikunni.

Steinnes er á miðju Þórssvæðinu en hefur ekki formlega verið hluti þess þar til nú. Húsið er steinsnar frá félagsheimilinu Hamri, á milli þess og stúkunnar við aðalvöll félagsins. Vestan við Steinnes er Lundurinn, einn af grasvöllum Þórs.

Akureyrarbær keypti húsið í tengslum við uppbyggingu á svæðinu vegna Landsmóts Ungmennafélags Íslands, sem fram fór 2009. Fyrri eigandi bjó í húsinu til ársins 2017 en eftir að fjölskyldan flutti á brott bjó þar um tíma sýrlensk fjölskylda, sem kom til landsins í hópi flóttamanna fyrir nokkrum misserum. Húsið hefur staðið autt undanfarið.

Ingi Björnsson, formaður Þórs, er ánægður með að málið sé í höfn. „Steinnes er innan skilgreinds íþróttasvæðis Þórs og það hefur lengi verið draumur margra Þórsara að fá húsið til afnota fyrir íþróttastarf félagsins. Við teljum að þetta komi sér afar vel fyrir félagið og erum þakklát bæjaryfirvöldum fyrir að hafa nú stigið þetta skref,“ segir Ingi í samtali við vefsíðu Þórs.

Mynd: thorsport.is


UMMÆLI

Sambíó