Steinþór Már bestur hjá KA í sumarMynd:KA.is

Steinþór Már bestur hjá KA í sumar

Lokahóf knattspyrnudeildar KA fór fram um helgina þar tímabili KA var fagnað og gert upp. Hófið var haldið í Golfskálanum þar sem skemmtikrafturinn Rikki G var veislustjóri. Tónlistarmennirnir Stebbi Jak og Magni spiluðu fyrir gesti.

Verðlaunaafhending leikmanna fór fram um kvöldið. Markvörðurinn Steinþór Már Auðunsson var valinn besti leikmaður liðsins en hann hefur verið frábær fyrir KA menn í sumar. Hann er uppalinn í KA en hafði ekki leikið fyrir félagið í efstu deild fyrir sumarið. Hann gekk til liðs við KA á nýjan leik frá Magna fyrir tímabilið og nýtti tækifærið til fulls.

Steinþór var á dögunum einnig valinn besti markvörður tímabilsins í Pepsi Max deildinni af leikmönnum deildarinnar.

Sóknarmaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson var markahæsti leikmaður KA í sumar en hann gerði alls 11 mörk í Pepsi Max deildinni. Hallgrímur átti eftirminnilegt sumar en hann varð markahæsti leikmaður í sögu KA þegar hann skoraði sitt 77. mark fyrir félagið. Þá var hann valinn í lið ársins af leikmönnum deildarinnar sem og hjá Fótbolta.net.

Þorri Mar Þórisson var valinn efnilegasti leikmaður liðsins en Þorri sem er 22 ára gamall lék alla leiki sumarsins fyrir utan einn og skilaði sínu hlutverki bæði í vörn og sókn.

UMMÆLI

Sambíó