Origo Akureyri

Stjórn Aflsins lýsir yfir áhyggjum af auknu ofbeldi og alvarlegri brotum á Norðurlandi eystra

Stjórn Aflsins lýsir yfir áhyggjum af auknu ofbeldi og alvarlegri brotum á Norðurlandi eystra

Stjórn Aflsins – samtök fyrir þolendur ofbeldis, hefur sent frá sér ályktun þar sem hún lýsir yfir áhyggjum af auknu ofbeldi og alvarlegri brotum á Norðurlandi eystra. Ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan:

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur lýst því að á starfssvæði þeirra hafi ofbeldi aukist og að sú aukning eigi við ýmsa málaflokka s.s. kynferðisbrot, líkamsárásir og heimilisofbeldi.

Teymisstjóri Bjarmahlíðar hefur lýst því yfir að þörfin fyrir þolendamiðstöð fyrir þolendur ofbeldis hafi aukist á milli ára, auk þess sem aukin eftirspurn hefur verið eftir þjónustu Aflsins. Þess utan birtast okkur sláandi tölur í íslensku æskulýðsrannsókninni, en þar kom t.d. fram að 20% stúlkna í 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar svara því að þær hafi upplifað að annar unglingur hafi haft munnmök eða samfarir við þær gegn þeirra vilja.

Stjórn Aflsins skorar á ríkisvaldið að bæta mönnun í útkalli lögreglunnar á Akureyri, en lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur bent á að bregðast þurfi við og fjölga þurfi lögreglumönnum á stöðinni um minnst tólf. Stjórn Aflsins hvetur alla þá sem koma að málefnum þeirra sem verða fyrir ofbeldi að taka stöðunni alvarlega og bregðast við með öflugum hætti. Við getum þetta saman.

UMMÆLI

Sambíó