Stjórn AHF sendir frá sér yfirlýsingu vegna lélegrar dómgæslu

Akureyri tapaði með minnsta mun fyrir FH.

Stjórn Akureyrar Handboltafélags sendi fyrr í dag frá sér yfirlýsingu þar sem dómgæsla í leik Akureyrar og FH í Olís-deild karla síðastliðinn sunnudag er gagnrýnd harkalega.

Sjá einnig: Svekkjandi tap Akureyrar í Kaplakrika

Yfirlýsingin er svohljóðandi.

Stjórn Akureyrar handboltafélags harmar ákvörðun dómara og eftirlitsmanns vegna atviks sem átti sér stað á síðustu sekúndum í jöfnum leik FH og Akureyrar laugardaginn 4. mars s.l.

Í fyrsta lagi gerðist leikmaður FH augljóslega sekur um brot, sem hefði átt að dæma rautt spjald og víti fyrir, samkvæmt reglum HSÍ.
Brotið fólst í því að setja ekki boltann beint niður þegar búið var að flauta til marks um að boltinn hafi verið dæmdur af sóknarliðinu. Hér er um að ræða skýrar reglur sem dómarar og eftirlitsmenn eiga að hafa á hreinu og voru þessar reglur settar til að koma í veg fyrir svona brot á síðustu sekúndunum leiks, svo að liðið sem brýtur hagnist ekki. Í svona tilvikum á tafarlaust að dæma víti og rautt spjald1). Dómararnir stöðvuðu leikinn og höfðu nægan tíma til að taka yfirvegaða ákvörðun en virðast ákveða að hunsa reglurnar að tilmælum eftirlitsmanns og hugsanlega ræna okkur stigi.

Í öðru lagi ákvað eftirlitsmaður að þjálfari Akureyrar hafi verið búinn að óska eftir leikhléi áður en brotið átti sér stað og því hafi ekki átt að dæma á brotið og leikhlé látið standa. Hins vegar er ljóst að þá áttu að minnsta kosti að vera eftir 4 sekúndur af leiktíma, ekki 1 sekúnda eins og látið var standa. Þetta sést allt greinilega á upptöku frá leiknum2).

Stjórn Akureyrar Handboltafélags harmar svona vinnubrögð ekki síst í ljósi þess að deildin er mjög jöfn og 1 stig getur skipt öllu máli í lok tímabils, bæði á toppi og botni deildarinnar. Of mörg dæmi eru um slæm dómaramistök í Olís-deildinni í vetur og leitt þegar svona mistök geta haft afdrifaríkar afleiðingar. Allir gera sér þó grein fyrir því að öll erum við mannleg og gerum mistök en þá er mikilvægt að viðurkenna mistökin, læra af þeim og reyna að koma í veg fyrir að þau gerist aftur.

Starf eftirlitsmanns á að vera skýrt samkvæmt 18.gr. reglugerðar HSÍ um mótamál:

„Sjái eftirlitsmaður eitthvað athugavert við framkvæmd leiks skal hann skila þar til gerðri skýrslu um það til mótanefndar. Eftirlitsmaður skal skila inn skýrslu til dómaranefndar sem sýnir mat hans á störfum dómara í leiknum en hann hefur ekki lögsögu með því sem dómarar ákveða og byggt er á mati þeirra á stöðunni í leiknum.“

Í þessu tilviki voru dómarar og eftirlitsmaður ósammála og eftirlitsmaðurinn réði dómnum. Það hefur alltaf verið okkar skilningur að dómarar taki ákvarðanir og dæmi það sem gerist í leiknum.

1) Sjá 4. lið í tilkynningu frá HSÍ frá 2. júní 2016 um sérreglur sem nú gilda um síðustu 30. sekúndur leiks (í stað síðustu mínútu) http://hsi.is/frettir/frett/2016/06/02/Domaramal-Breyting-a-leikreglum/

Virðingarfyllst,
Stjórn Akureyrar Handboltafélags

Atvikið sem um ræðir má sjá á myndbandi hér fyrir neðan en það gerist á 01:30:00 í mynd­band­inu.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó