Stjórnmál snúast um fólk

Stjórnmál snúast um fólk

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar

Starf okkar sem erum í pólitík er margvíslegt en skemmtilegast þykir mér að ferðast um kjördæmið mitt og ræða við fólk. Þar fæ ég bestu hugmyndirnar og oft hressilega áminningu um það sem betur má fara – beint af kúnni. Frá fólkinu sem ég starfa fyrir. Um leið gefst mér tækifæri til að ræða áherslumál Vinstri grænna fyrir komandi kjörtímabil.

Stjórnmál snúast nefnilega ekki bara um ríkisfjármál, samgöngur og allt því tengt, þó það skipti gríðarlega miklu máli. Að mínu mati snúast stjórnmálin fyrst og fremst um fólk og það er hlutverk okkar kjörinna fulltrúa að bæta líf fólksins í landinu. Það starf tekur svo á sig hinar ýmsu birtingarmyndir, svo sem að bæta samgöngur, efla heilbrigðiskerfið eða að gera fólki kleift að efla byggð í sínum heimabæ.

Mikilvægar framfarir í mannréttindamálum

Stjórnmálin snúast ekki síst um að tryggja réttindi fólks á hinn ýmsa hátt. Á núverandi kjörtímabili hefur það til að mynda verið gert með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði sem styrkir réttindi trans- og intersex fólks. En ofbeldi gegn hinsegin fólki víða í Evrópu sýnir okkur að við megum ekki sofna á verðinum þó að við stöndum vel hér á landi í stöðu hinsegin samfélagsins. Einnig voru samþykkt ný lög um þungunarrof sem tryggja sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama og lengt fæðingarorlof tryggir foreldrum ómetanlegan tíma með börnum sínum í frumbernsku. Það skiptir máli hver stjórnar og allar þessar úrbætur hafa orðið á vakt Vinstri grænna.

Tryggjum áframhaldandi umbætur

Starfinu er þó aldrei lokið enda er samfélagið í stöðugri þróun. Stóra verkefnið framundan er að byggja samfélagið aftur upp eftir heimsfaraldur. Ég tel að það sé mikilvægt að hugsa út fyrir boxið í allri þeirri vinnu. Enda stöndum við frammi fyrir margskonar breytingum m.a. vegna tækniframfara sem kalla á nýsköpun í víðum skilningi og í raun að hún sé inni í öllum málaflokkum. Þrátt fyrir að gríðarlegir fjármunir hafi verið settir í nýsköpun, rannsóknir og frumkvöðlastarfsemi þurfum við að halda áfram á þeirri braut til að tryggja að hér sé áfram góður jarðvegur fyrir slíka starfsemi.

Við þurfum að horfa til minni plássa sem hafa reitt sig á ferðaþjónustu sem aðal atvinnugrein undanfarin ár og tryggja jarðveginn sem þar hefur orðið til varðandi margs konar nýsköpun.  Atvinnutækifærin þurfa að vera fjölbreytt til að samfélög þrífist og ekki síst til að unga fólkið okkar vilji búa í hinum dreifðu byggðum. 

Í mínu stóra kjördæmi er gott að hafa fólk sem þekkir vel til staðhátta og nú hafa Austfirðingar tækifæri til að eiga sér málsvara úr nærsamfélaginu á þingi og því hlakka ég sérstaklega til að vinna með Jódísi Skúladóttur sem skipar annað sæti á lista okkar Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, en hún hefur komið sterk inn í sveitarstjórnarmálunum í Múlaþingi.

Það er alltaf verk að vinna á vettvangi stjórnmálanna og mikilvægt að muna að það ástand sem við lifum nú er tímabundið. Það mun einn daginn taka enda og hversdagurinn tekur aftur við. Þá munum við ekki hafa setið auðum höndum, heldur munum við sem samfélag koma tvíefld til baka.

Ég vil halda áfram að leggja mitt af mörkum til að bæta líf fólksins í landinu og hlakka til að fá tækifæri til að hitta ykkur sem flest og ræða málin.

Höfundur er þingflokksformaður og oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.

UMMÆLI

Sambíó